Handbolti: Erfitt verkefni hjá KA/Þór, en enn er von

Lokaumferðin í Olísdeild kvenna í handbolta verður spiluð í dag og hefjast allir leikirnir kl. 17:30. KA/Þór sækir Fram heim og þarf á stigi að halda, í það minnsta, til að eiga möguleika á að halda sér í deildinni. 

Á ögurstundu í næstsíðustu umferðinni náði KA/Þór að sigra Aftureldingu og hélt þannig lífi í voninni um að halda sér í deildinni, en verkefnið er erfitt engu að síður. Stelpurnar sækja næstefsta lið deildarinnar, Fram, heim í dag og þurfa á stigi að halda, í það minnsta, auk þess að treysta á að Afturelding vinni ekki topplið Vals. Gangi það ekki eftir er það Grill 66 deildin sem bíður þeirra á næsta tímabili. En þó svo KA/Þór næði 7. sætinu af Aftureldingu er sagan ekki öll því liðið í 7. sæti fer í umspil ásamt liðunum í 2.-4. sæti Grill 66 deildarinnar og mætir liðinu í 4. sæti deildarinnar í undanúrslitum.