Handbolti: Fimm marka tap í Breiðholtinu

KA/Þór er enn í erfiðri stöðu á botni Olísdeildarinnar eftir fimm marka tap gegn ÍR í Breiðholtinu í gær. Næsti leikur gríðarlega mikilvægur í botnbarátunni. Martha Hermannsdóttir tók fram skóna að nýju í gær, en tæp tvö ár eru frá því þeir fóru á hilluna. Hulda Bryndís Tryggvadóttir mætti til leiks að nýju eftir barnsburðarleyfi.

KA/Þór var á undan að skora og náði tveggja marka forystu í upphafi leiks, en fyrsta mark ÍR kom eftir fimm mínútna leik. ÍR-ingar náðu svo frumkvæðinu og leiddu með sex mörkum í leikhléi. Forskot ÍR-inga var orðið níu mörk um miðjan seinni hálfleik, en minnkaði í fimm mörk áður en yfir lauk. 

ÍR - KA/Þór 22-17 (12-6)

KA-Þór
Mörk: Nathalia Soares Baliana 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 3, Martha Hermannsdóttir 3, Lydía Gunnþórsdóttir 2, Rafaele Nascimento Fraga 2, Telma Lísa Elmarsdóttir 1, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 1, Hildur Magnea Valgeirsdóttir 1, Isabella Fraga 1.
Varin skot: Matea Lonac 9 (30%).
Refsimínútur: 6.

ÍR
Mörk: Karen Tinna Demian 8, Matthildur Lilja Jónsdóttir 4, Ásthildur Berta Bjarkadóttir 3, Sylvía Sigríður Jónsdóttir 2, Hanna Karen Ólafsdóttir 2, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 1.
Varin skot: Hildur Öder Einarsdóttir 14 (45,2%).
Refsimínútur: 8.

KA/Þór er í erfiðri stöðu á botni Olísdeildarinnar með fimm stig, en Stjarnan, sem hafði í nokkurn tíma verið með fimm stig eins og KA/Þór, nældi sér í tvö dýrmæt stig fyrir viku með sigri á Aftureldingu. Þessi þrjú lið berjast í botnbaráttunni, Stjarnan nú með sjö stig, Aftrelding með sex stig og KA/Þór með fimm. Stjarnan hefur leikið einum leik meira en hin tvö liðin. Það er kannski til marks um erfiða stöðu liðsins að í gær spilaði Martha Hermannsdóttir sinn fyrsta leik með liðinu í tæp tvö ár, tók fram skóna að nýju eftir að hafa lagt þá á hilluna. Þá mætti Hulda Bryndís Tryggvadóttir aftur til leiks með liðinu eftir barnsburðarleyfi, en meiddist reyndar seint í leiknum.

Næsti leikur liðsins er gríðarlega mikilvægur og gæti skipt sköpum í baráttunni þegar stelpurnar fá lið Stjörnunnar í heimsókn norður næsta laugardag. Liðið á nú aðeins eftir fimm leiki og má segja að fram undan sé lífróður upp á að halda sæti sínu í deildinni. KA/Þór á svo einnig eftir að mæta Aftureldingu á heimavelli um miðjan mars. Það eru því fjögur dýrmæt stig enn í pottinum gegn liðunum sem berjast einnig við að forðast fall úr deildinni.

Næst

  • Deild: Olísdeild kvenna
  • Leikur: KA/Þór - Stjarnan
  • Staður: KA-heimili
  • Dagur: Laugardagur 17. febrúar
  • Tími: 17:30