Handbolti: Þórsarar fá topplið deildarinnar í heimsókn

Þórsarar taka á móti toppliði Grill 66 deildarinnar í handbolta í Íþróttahöllinni á Akureyri í dag kl. 15. 

Ungmennalið Fram er langefst í deildinni og raunar búið að tryggja sér efsta sætið, er með 27 stig, fimm stigum meira en næsta lið. Það er því verðugt verkefni sem Þórsarar fá í dag, en þeir þurfa sannarlega á öllum stigunum að halda í þeim tveimur leikjum sem eftir eru af deildinni.

Heldur hefur sigið á ógæfuhliðina hjá Þórsliðinu að undanförnu, ef litið er á stöðutöfluna í deildinni. Hörður frá Ísafirði átti inni leiki og hefur verið að bæta við sig stigum og er nú svo komið að Þórsarar eru neðstir þeirra fjögurra liða sem mega fara upp um deild og munu berjast um lausu sætin. Engir innbyrðis leikir eru eftir á milli þessara liða, aðeins leikir þeirra gegn ungmennaliðunum.

ÍR-ingar standa nú best að víbi með 22 stig, Fjölnir er með 21, Hörður með 20 og Þór með 18. Haldist þessi röð óbreytt fara ÍR-ingar beint upp, Fjölnir situr yfir í undanúrslitum og Þórsarar mæta Herði þar sem Ísfirðingar eiga oddaleik heima ef til þess kemur. 

Leikir sem liðin eiga eftir:

Þór: Fram-U (h), Víkingur-U (ú)
Hörður: Haukar-U (ú), HK-U (h)
Fjölnir: Valur-U (h), KA-U (ú)
ÍR: KA-U (ú), Haukar-U (h)