Knattspyrna: Jafntefli í lokaleik riðilsins í Lengjubikarnum

Fannar gefur markinu sínu og sigri Þórs í riðlinum þumalinn. Mynd: Þór fótbolti.
Fannar gefur markinu sínu og sigri Þórs í riðlinum þumalinn. Mynd: Þór fótbolti.

Þór og Fjölnir skildu jöfn í lokaleik liðanna í riðli 3 í A-deild Lengjubikars karla í dag. Þór mætir Breiðabliki í undanúrslitum mótsins fimmtudaginn 14. mars.

Fannar Daði Malmquist Gíslason kom Þórsurum yfir eftir um hálftíma leik og var það eina mark fyrri hálfleiksins. Önnur tíðindi úr fyrri hálfleiknum voru helst þau að einn leikmaður úr hvoru liði fékk að líta rauða spjaldið. Fyrst var það Ragnar Óli Ragnarsson hjá Þór á 35. mínútu. Það voru þó ekki nema um sjö mínútur sem Þórsarar voru einum færri því á 42. mínútu fékk Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson sitt annað gula spjald og var því einnig sendur af velli. Baldvin Þór Berndsen jafnaði síðan leikinn þegar um 20 mínútur voru til leiksloka. Niðurstaðan 1-1 jafntefli. 

Þór - Fjölnir 1-1 (1-0)

Þór vann riðilinn eins og áður hefur komið fram. Þórsarar enduðu með 13 stig, en KR-ingar komu næstir með tíu.

Næst

  • Mót: Lengjubikar karla, úrslitakeppni (undanúrslit)
  • Leikur: Þór - Breiðablik
  • Staður: Boginn
  • Dagur: Fimmtudagur 14. mars
  • Tími: 16:30