Knattspyrna: Sigur í Víkinni og Þór/KA í 3. sæti

Frá upphitun fyrir leik Víkings og Þórs/KA í gær.
Frá upphitun fyrir leik Víkings og Þórs/KA í gær.

Þór/KA vann sinn þriðja leik í röð í Bestu deild kvenna í knattspyrnu og er í 3. sæti deildarinnar. Sandra María komin í átta mörk, en ekki lengur sú eina sem hefur skorað mörk liðsins í deildinni.

Heimakonur í Víkinni voru fyrri til að skora, en það gerði fyrrum leikmaður Þórs/KA, Shaina Ashouri, strax á 5. mínútu. Það liðu þó ekki nema 12 mínútur þar til Þór/KA hafði jafnað leikinn. Ísfold Marý Sigtryggsdóttir skoraði þá eftir fyrirgjöf frá Söndru Maríu Jessen, en þetta var fyrsta mark Þórs/KA í deildinni sem Sandra María skorar ekki. Hún tryggði svo sigurinn með marki 12 mínútum síðar. 

Þór/KA komið með 2-1 forystu eftir fyrsta hálftímann, en ekki var meira skorað eftir það. Bæði lið fengu ágætis tækifæri til að bæta við mörkum, Þór/KA heldur fleiri en heimakonur, en þau nýttust ekki. 

Víkingur - Þór/KA 1-2 (1-2)

Þór/KA vann í gær sinn þriðja leik í röð í Bestu deildinni eftir að hafa beðið lægri hlut á móti Íslandsmeisturum Vals á útivelli í fyrstu umferðinni. Í gær voru bikarmeistararnir og meistarar meistaranna lagðir að velli í miklum baráttuleik þar sem nýir leikmenn komu inn í byrjunarliðið og stigu upp í fjarveru annarra. Þór/KA er í 3. sæti deildarinnar með níu stig, en Breiðablik og Valur þar fyrir ofan með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.

Næsti leikur liðsins er strax kl. 18 á þriðjudag þegar Þór/KA tekur á móti Keflvíkingum í Boganum.