Knattspyrna: Þór/KA og Breiðablik mætast í undanúrslitum

Þór/KA tekur á móti liði Breiðabliks í undanúrslitum A-deildar Lengjubikars kvenna í Boganum í dag kl. 14:30. Vakin er athygli á breyttum leiktíma.

Þór/KA vann riðil 2 þar sem liðið vann fjóra leiki og tapaði einum. Breiðablik endaði í 2. sæti í riðli 1 með sama stigafjölda og Þór/KA, vann fjóra leiki og tapaði einum leik. Þór/KA fær því heimaleik í undanúrslitum, sem sigurlið síns riðils. 

Bæði þessi lið töpuðu leik í lokaumferð riðilsins, Þór/KA gegn Stjörnunni og Breiðablik gegn Val. Markatala Breiðabliks er 14-5, en 22-6 hjá Þór/KA. Sigurlið þessarar viðureignar mætir Val eða Stjörnunni í úrslitaleik laugardaginn 30. mars.

Þór/KA og Breiðablik mættust einnig í undanúrslitum í Lengjubikarnum í fyrra. Þar hafði Þór/KA 2-1 sigur og fór í úrslitaleikinn.