Leikur 2 í Hólminum í kvöld

Þórsstelpurnar mæta liði Snæfells í öðrum leik liðanna í undanúrslitum 1. deildar kvenna í körfubolta í kvöld.

Fyrsti leikur liðanna varð æsispennandi og náðu stelpurnar okkar að kreista fram sigur á lokamínútunni, 80-78. Þegar upp er staðið er ekki spurt hve lengi lið hafa forystu í leikjum, heldur hvort liðið er með forystuna þegar lokaflautið gellur og það féll Þórsmegin í Höllinni á laugardaginn.

Annar leikur liðanna fer fram í Stykkishólmi í kvöld og hefst kl. 19:15. Snæfell streymir heimaleikjum sínum með VEO-live, sem er sjálfvirk vél, og þurfa áhorfendur að ná sér í Veo Live smáforritið, stofna aðgang og finna Snæfell til að geta horft. Það kostar ekkert. Hér er heimasvæði Snæfells á Veo-live: https://veolive.page.link/kHiG

Þriðja viðureignin verður í Íþróttahöllinni á Akureyri föstudaginn 31. mars og hefst kl. 17:30. Vakin er athygli á óvenjulegum leiktíma, en hann skýrist af því að síðar sama kvöld verður þar einnig handboltaleikur hjá karlaliði Þórs.