Maður lærði að deyja fyrir klúbbinn“ – Andri Már á EM með landsliðinu

Þórsarinn Andri Már Rúnarsson er þessa dagana að upplifa stærsta draum ungra handboltamanna en hann er staddur á Evrópumótinu með íslenska landsliðinu.

Þetta er fyrsta stórmót Andra og upplifunin hefur verið eftir því. Stóra sviðið sem manni dreymir um „Þetta er stóra sviðið sem maður vill vera á og rosalega gaman að upplifa þetta,“ segir Andri Már, sem nýtur þess að vera hluti af sterkum landsliðshópi. „Það er líka mjög gaman að vera í þessum hópi og kynnast öllum betur.“

Þegar Andri var valinn í EM-hópinn létu tilfinningarnar ekki á sér standa. „Það var algjör gæsahúð og mikill heiður að fá kallið. Svo tók bara við mikil einbeiting á verkefnið.“ Fjölskyldan fylgist stolt með Andri Már kemur úr mikilli handboltafjölskyldu. Pabbi hans er Rúnar Sigtryggsson, fyrrverandi landsliðsmaður og Þórsari. Hann segir fjölskylduna allltaf hafa staðið þétt við bakið á sér og auðvelt sé að leita ráða hjá gamla manninum sem þekkir það vel að vera á stórmóti.

Samanburður feðganna er óhjákvæmilegur, en Andri Már tekur því af yfirvegun. Hann bendir á að pabbi gamli eigi enn forskotið, með fleiri stórmót að baki. „Þannig að ég á ennþá eitthvað í land.“


Andri ásamt Huldu Björg Hannesdóttur á Þórsvelli fyrir nokkrum árum

Atvinnumennska í Þýskalandi

Andri Már sem leikur með Erlangen í þýsku úrvalsdeildinni segir lífið að sem atvinnumaður sé bæði krefjandi og skemmtilegt.

„Þetta eru algjör forréttindi að fá að spila og æfa handbolta alla daga,“ segir hann og viðurkennir jafnframt að hæðir og lægðir fylgi því að vera atvinnumaður. Metnaðurinn er þó skýr og stefnan sett á að komast enn lengra.


Andri í leik í þýsku úrvalsdeildinni

Þórsari í húð og hár

Þrátt fyrir að vera búsettur í Þýskalandi eru tengslin við uppeldisklúbbinn sterk. Andri Már ólst upp í Þorpinu og lék sína fyrstu handboltaleiki með Þór. „Maður var ungur, en maður lærði alveg að þola ekki KA og deyja fyrir klúbbinn og maður gleymir því ekki,“ segir Andri. Hann fylgist vel með Olís-deildinni þegar færi gefst og hefur sérstaklega gaman af því að sjá Þór. Hann vonast til að liðið nái að festa sig í sessi í deildinni og taka næstu skref. Þá fylgist hann að sjálfsögðu grannt með bróður sínum, Sidda sem leikur með ÍBV.


Þorparar

Að lokum sendir Andri Már skilaboð heim í Þorpið, sérstaklega til yngri iðkenda. „Til ungu Þórsaranna: ekki gleyma að taka aukaæfingarnar sem hinir nenna ekki að gera. Verið duglegir að hafa gaman af handbolta, lyfta og borða"

Heimasíðan óskar Andra Má innilega til hamingju með fyrsta stórmótið og fylgjast Þórsarar stoltir með sínum manni á stærsta sviðinu.