Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Ólafur Gísli Hilmarsson Minning.
Í dag, miðvikudaginn 30. apríl kl 13.00 fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi útför Ólafs Gísla Hilmarssonar en hann lést langt fyrir aldur fram eftir snörp veikindi þann 21. apríl síðastliðin einungis 58 ára gamall.
Ólafur, eða Óli Hilmars eins og hann var oft kallaður var fæddur inn í mikla Þórsfjölskyldu og hjarta hans sló alla tíð ótt og títt með félaginu í þorpinu. Foreldarar hans voru hjónin Hilmar Henrý Gíslason heiðursfélagi Íþróttafélagsins Þórs og kona hans Ingibjörg Þorvaldsdóttir, þau eru nú bæði látin.
Eftirlifandi systkini Ólafs eru: Þorvaldur Kristinn, Kristín og Guðveig Jóna
Í uppvexti var Óli iðkandi í flestum þeim íþróttum er íþróttafélagið Þór stundaði enda kraftmikill og á stundum fyrirferðarmikil krakki og var hann liðtækur í þeim öllum.
Óli var hörku knattspyrnumaður og einnig gat hann sér gott orð á handknattleiksvellinum þar sem hann lék með félaginu alveg upp í meistaraflokk, og menn rifja nú upp eldmóðinn og keppniskapið hjá honum, sem var á stundum umtalað og eftirminnilegt. Það heyrðist vel í okkar manni.
Einnig var Óli mjög liðtækur á skíðum og keppti í allmörg ár undir merkum SRA, skíðaráðs Akureyrar.
Eftir að leikmannaferlinum lauk sat Ólafur um hríð í stjórn handknattleiksdeildar félagsins.
Ólafur flutti suður og hélt áfram að styðja félagið sitt í orði og verki alla tíð og t.d í störfum sínum sem markaðsstjórði Pennans þá naut Íþróttafélagið Þór sannarlega bestu kjara við kaup á húsgögnum svo segja má með sanni að hlýr hugur Óla var í þorpinu á Akureyri og er það ekki einmitt svo dýrmætt að vita að uppeldið hjá félaginu hefur verið munað og skilað sér sannarlega áfram.
Eftirlifandi eiginkona Ólafs er Eva Sif Heimisdótir og eignuðust þau 2 börn, en Eva átti 2 börn áður sem Ólafur tók sem sínum alla tíð.
Það er sorg í huga okkar Þórsara allra og við stöndum öll sem eitt hljóð og klökk. Það er ekki sanngjarnt að kalla svo unga menn af leikvelli lífsins svo snemma.
Mestur er þó missir eiginkonu Ólafs Gísla og barna sem og systkina.
Íþróttafélagið Þór sendir öllum ástvinum Ólafs Gísla Hilmarssonar sínar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum þann, sem öllu ræður að umvefja ykkur öll og styðja.
Guð blessi minningu Ólafs Gísla Hilmarssonar.
Íþróttafélagið Þór.
Hver minning er, sem dýrmæt perla.