Pílukast: 36 kependur á DartUng 2 á laugardaginn

Önnur umferð DartUng mótaraðarinnar, sem ÍPS stendur fyrir í samvinnu við PingPong.is, fór fram í aðstöðu píludeildar Þórs á laugardaginn. Alls mættu 36 keppendur til leiks og var spilað í tveimur aldursflokkum í bæði stráka- og stúlknaflokki.

Í flokki stúlkna 13 ára og yngri voru þrír keppendur og var það Aþena Ósk Óskarsdóttir sem stóð upp sem sigurvegari líkt og hún gerði í DartUng 1 en hún sigraði Rakel Málfríði Egilsdóttur 3-0 í úrslitaleiknum.

Í flokki stúlkna 14 ára og eldri voru tveir keppendur en það var Nadía Ósk Jónsdóttir sem sigraði Hrefnu Lind Jónasdóttur 4-0 í úrslitaleiknum.

Þrettán keppendur voru í flokki drengja 9-13 ára. Axel James Wright stóð uppi sem sigurvegari en hann sigraði Kára Vagn Birkisson 4-2 í úrslitaleiknum. Axel hefndi þar með fyrir DartUng 1 þar sem Kári sigraði hann í úrslitaleiknum og sitja þeir nú í fyrstu tveimur sætum stigalistans og munar einungis fimm stigum á þeim.

Í flokki drengja 14-18 ára mættu 20 keppendur til leiks. Ægir Eyfjörð Gunnþórsson stóð upp sem sigurvegari en hann sigraði einnig DartUng 1. Í úrslitaleiknum spilaði hann við Matthías Helga Ásgeirsson og vann Ægir leikinn 4-1 og kláraði með glæsilegu 112 útskoti.

Myndir og nánari umfjöllun má finna á vef ÍPS - sjá hér


Aþena Ósk Óskarsdóttir vann í flokki 13 ára og yngri.