Pílukast: Systkinin Viðar og Sunna félagsmeistarar í 501

Valþór Atli Birgisson (2), Viðar Valdimarsson (1), Sunna Valdimarsdóttir (1) og Ólöf Heiða Óskarsdót…
Valþór Atli Birgisson (2), Viðar Valdimarsson (1), Sunna Valdimarsdóttir (1) og Ólöf Heiða Óskarsdóttir (2).

Sunna Valdimarsdóttir og Viðar Valdimarsson eru félagsmeistarar Þórs í 501 í pílukasti. Viðar sigraði Valþór Atla Birgisson í úrslitaleiknum í karlaflokki, en Sunna sigraði Ólöfu Heiðu Óskarsdóttur í úrslitaleik kvennaflokksins.

Níu keppendur voru í kvennaflokki, skipt í tvo riðla og fóru átta áfram í útsláttarkeppni. Sunna sigraði Kolbrúnu Gígju Einarsdóttur í átta manna úrslitum, 4-2, og Freyju Björk Kristinsdóttur 4-3 í undanúrslitum. Ólöf Heiða vann Hrefnu Sævarsdóttur, 4-0, í átta manna úrslitum og svo Dóru Valgerði Óskarsdóttur, einnig 4-0, í undanúrslitum. Sunna vann Ólöfu Heiðu síðan 5-4 í jöfnum og spennandi úrslitaleik. 

Úrslitaleikur Sunnu og Ólafar Heiðu:

Keppendur í karlaflokki voru 42 og spiluðu í átta riðlum. Fjórir efstu í hverjum riðli fóru áfram í 32ja manna úrslit. Viðar Valdimarsson stóð uppi sem félagsmeistari í 501 í karlaflokki eftir 6-4 sigur á Valþóri Atla Birgissyni í úrslitaleiknum. Viðar sigraði Daða Guðvarðarson, 4-0, í 32ja manna úrslitum, síðan Friðrik Gunnarsson 5-3 í 16 manna úrslitum, Vigfús Hjaltalín 5-0 í átta manna úrslitum og Róbert Loga Ottesen 5-0 í undanúrslitum. Valþór Atli hafði áður unnið 4-1 sigur á Einari Ragnari Haraldssyni í 32ja manna úrslitum, síðan 5-1 gegn Edgars Kede Kedza í 16 manna og vann Hjört Geir Heimisson 5-3 í átta manna úrslitum. Hann vann svo Ágúst Svan Aðalsteinsson, 5-1, í undanúrslitum.

Hjörtur Geir Heimisson skoraði 180 í undanúrslitaleiknum. Hann átti 189 eftir og þegar hann hafði sett tvær pílur í þrefaldan 60 stóðst hann ekki mátið að reyna við 180 þó svo það þýddi að hann ætti níu eftir og væri þar með ekki með möguleika á útskoti í einni pílu.

Úrslitaleikur Viðars og Valþórs Atla:

Píludeildin útbjó flotta umgjörð um úrslitaleikina, eða eins og stærð aðstöðunnar í Laugargötunni leyfði. Leikir frá átta manna úrslitum karla og úrslitaleikur kvenna fóru fram á laugardagskvöldið með ljósasýningu, inngöngulögum og alvöru stemningu.