Pollamót Þórs í körfubolta 2022

Pollamót Þórs í körfubolta 2022

Frábært Pollamót Þórs í körfuknattleik í baksýnisspeglinum – sigurvegarar og annað markvert.

Pollamót Þórs í körfuknattleik fór fram síðastliðinn laugardag í Íþróttahöllinni á Akureyri. Mótið þótti takast einkar vel til en það hefur aldrei verið fjölmennara eða glæsilegra. Vel á annað hundrað keppendur í 18 liðum mættu til leiks að þessu sinni og undu sér vel frá morgni og vel fram á kvöld.

Fullt af flottum tilþrifum sáust á mótinu og þrátt fyrir mikla keppni fóru leikirnir fram í hinu mesta bróðerni og gleðin skein úr hverju andliti. Körfuboltinn er jú alltaf svo skemmtilegur og það toppar fátt hitta gamla félaga úr boltanum og rifja upp góðar minningar innan sem utan vallar.

Þegar upp var staðið voru það Þórs-stelpur sem urðu hlutskarpastar í Pæjudeildinni (20 ára og eldri konur). Boltabras ehf. vann Polladeildina (25 til 39 ára karla) og Álftanes sigraði stóð uppi sem sigurvegari í Lávarðadeildinni (karlar 40 ára og eldri).

Í mótslok var blásið til fjölmennrar grillveislu og kvöldskemmtunar þar sem aðalnúmerið var Villi vandræðaskáld. Óhætt er að segja að Villi hafi slegið í gegn hjá kvöldgestum og uppskar hann mikinn hlátur og var klappaður tvisvar sinnum upp. Þá var mikil ánægja með grillmatinn og stemninguna.

Skipuleggjendur Pollamóts Þórs í körfuknattleik þakka öllum keppendum fyrir þátttökuna og vonast til að sjá alla aftur að ári og fleiri til. Nánari tímasetning verður auglýst áður en langt um líður.

Mótsnefnd þakkar þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg við mótið og sér í lagi þeim sem lögðu á sig gríðarlega mikla vinnu til þess að láta allt ganga upp. Án ykkar framlags væri ekki hægt að halda svona mót. Einn af okkar frábæru sjálfboðaliðum, Páll Jóhannesson, tók fullt af myndum um miðbik móts eins og sjá má.

Mótsnefnd þakkar einnig styrktaraðilum fyrir þeirra mikilvæga framlag (Kjarnafæði, Kristjánsbakarí, Matur og Mörk, MS og Vífilfell).

Sjáumst á næsta ári á Pollamóti Þórs í körfuknattleik! Áfram körfubolti!

Kveðja, mótsnefnd (Doddi, Gummi, Marta og Raggi)

Myndaalbúm Páll Jóhannesson