Seiglusigur í Breiðholtinu

Það vantar aldrei stemninguna í Þórsliðið. Hér er hópurinn fyrir leikinn í gær. 
Aftari röð: Daníel…
Það vantar aldrei stemninguna í Þórsliðið. Hér er hópurinn fyrir leikinn í gær.
Aftari röð: Daníel Andri Halldórsson þjálfari, Heiða Hlín Björnsdóttir fyrirliði, Eva Wium Elíasdóttir, Maddie Sutton, Rut Herner Konráðsdóttir og Katrín Eva Óladóttir. Fremri röð: Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Karen Lind Helgadóttir, Hrefna Ottósdóttir og Vaka Bergrún Jónsdóttir. Mynd: Palli Jóh.

Von er á myndum úr leiknum í myndaalbúm hér á heimasíðunni á næstu dögum.

Þórsarar sóttu lið Aþenu/Leiknis/UMFK heim í Breiðholtið í 1. deild kvenna í körfubolta í gær og höfðu fimm stiga sigur. Toppsætið áfram okkar eftir átta sigurleiki í röð.

Þórsurum gekk brösuglega í upphafi, fyrir utan það að skora fyrstu körfu leiksins. Aþena/Leiknir/UMFK leiddi fyrstu mínúturnar, mest með átta stigum, en Þórsstelpurnar tóku seigluna með sér suður og komust yfir 18-16 þegar um tvær mínútur voru eftir af fyrsta fjórðungi. Þrátt fyrir að hiksta reglulega í leiknum og tapa boltanum alltof oft létu Þórsstelpurnar forystuna aldrei af hendi aftur þó hún yrði óþægilega lítil öðru hverju.

Munurinn varð minnstur eitt stig í nokkur skipti og mestur níu stig þegar þriðja leikhluta lauk. Það sem hins vegar hrjáði Þórsliðið hvað mest í leiknum og kom í veg fyrir að stelpurnar næðu að sigla sigrinum örugglega í höfn voru misheppnaðar sendingar og tapaðir boltar, en liðið tapaði boltanum samtals 24 sinnum á móti 14 töpuðum boltum heimaliðsins. Fráköstin voru hins vegar Þórsliðsins, samtals 50 á móti 37 fráköstum heimaliðsins. Fjórði leikhluti varð spennandi og náði heimaliðið tvisvar að minnka muninn í þrjú stig, en baráttan í Þórsliðinu fleytti því áfram á lokakaflanum og niðurstaðan varð fimm stiga sigur.

Maddie Sutton var sem fyrr atkvæðamest í Þórsliðinu. Hún spilaði allan leikinn, skoraði 23 stig og tók 23 fráköst, var með 33 framlagspunkta. Eva Wium Elíasdóttir spilaði einnig allan leikinn og skoraði 22 stig tók fimm fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Brot á þeim tveimur skiluðu samtals 19 villum á leikmenn heimaliðsins.

Tölurnar úr leikhlutunum: 21-22 • 11-12 • (32-34) • 11-18 • 22-19 • 65-71.

Átta sigrar í röð

Þórsliðið hefur nú unnið átta leiki í röð, en síðasta tap kom einmitt í leik gegn andstæðingum gærkvöldsins á heimavelli fyrr á árinu. Þór er áfram á toppi deildarinnar eftir umferð gærkvöldsins, en liðin í næstu sætum, Stjarnan og Snæfell, unnu einnig sína leiki. Stjarnan á núna tvo leiki til góða á Þór og Snæfell. Þórsarar eru á toppnum með 17 sigra, Stjarnan hefur unnið 16 leiki og Snæfell 15. Þór og Snæfell eiga þrjá leiki eftir, en Stjarnan á fimm leiki eftir, en þessi lið eiga eftir að mætast í Garðabænum. 

Næsti leikur Þórsliðsins er einmitt gegn Stjörnunni í Garðabænum miðvikudaginn 8. mars kl. 19:15, gríðarlega mikilvægur leikur og ástæða til að hvetja Þórsara til að mæta í Garðabæinn og styðja stelpurnar af krafti. Hópferð ungra körfuboltadrengja í Hólminn fyrir stuttu sýndi og sannaði að stuðningur úr stúkunni hefur áhrif. Stjarnan hefur verið í toppsæti deildarinnar nánast allt mótið þar til í síðustu umferð. Sætaröðunin er mikilvæg og getur skipt öllu máli þegar upp er staðið - ekki aðeins upp á að vinna deildarmeistaratitil heldur einnig til að eiga oddaleik eða leiki á heimavelli ef til þess kemur þegar úrslitakeppni deildarinnar tekur við. Fjögur efstu liðiðn fara í úrslitakeppni og berjast um aðeins eitt laust sæti í efstu deild.

Þrjú lið eru langt á undan öðrum í deildinni, Þór, Stjarnan og Snæfell, en KR og Hamar/Þór eiga í harðri baráttu um fjórða sætið.

Leikir sem Þór, Stjarnan og Snæfell eiga eftir:
Þór: Stjarnan (ú), KR (h), Breiðablik b (ú)
Stjarnan
: Breiðablik b (ú), Þór (h), Aþena/Leiknir/UMFK (h), Tindastóll (ú), Snæfell (h)
Snæfell: Hamar/Þór (h), Aþena/Leiknir/UMFK (ú), Stjarnan (ú)

Staðan í deildinni eftir leikina í gær. Ef smellt er á myndina opnast síða á kki.is með ítarlegri upplýsingum.