Sigur í síðasta heimaleik ársins

 

Þórsarar áttu ekki í neinum vandræðum með ungmennalið Selfoss, sigruðu með tíu marka mun í Höllinni í kvöld. Kostadin Petrov maður leiksins með tíu mörk. Næsti heimaleikur liðsins verður eftir tvo mánuði.

Þórsarar byrjuðu leikinn af mun meiri krafti en gestirnir og náðu fljótt fimm marka forystu, 6-1. Arnar Þór Fylkisson varði mörg skot á þessum kafla, var um tíma í upphafi leiksins með yfir 70% markvörslu 8/11. Munurinn varð mestur sjö mörk í fyrri hálfleiknum, en Selfyssingar náðu að minnka hann í fjögur um tíma. Staðan eftir fyrri hálfleikinn 18-13. Josip Vekic skoraði 18. markið beint úr aukakasti eftir að leiktími fyrri hálfleiks var liðinn. Ásamt Arnari í markinu var Koki Petrov atkvæðamestur Þórsara, skoraði sjö mörk í fyrri hálfleiknum.

Selfyssingar mættu fremur fámennir norður, voru með átta útileikmenn á skýrslu. Eins og við mátti búast breikkaði bilið á milli liðanna fljótlega í seinni hálfleiknum og Þórsarar náðu mest 12 marka forystu. Leikurinn leystist dálítið upp á köflum og var mikið skorað í seinni hálfleiknum. Lokatölur urðu 39-29, en Þórsarar unnu seinni hálfleikinn 21-16 - samtals 37 mörk á 30 mínútum.

Koki Petrov hélt áfram að skora mörk af línunni í seinni hálfleik, eins og þeim fyrri, varð markahæstur Þórsara og valinn maður leiksins að leik loknum – hlaut að launum gjafabréf frá Sprettinum. Koki skoraði tíu mörk, en Jón Ólafur Þorsteinsson og Josip Vekic voru einnig öflugir og skoruðu átta mörk hvor. Jóhann Geir Sævarsson, sem spilaði í kvöld sinn fyrsta leik fyrir Þórsliðið í langan tíma, skoraði fjögur mörk, eins og Aron Hólm Kristjánsson. Halldór Yngvi Jónsson gerði tvö og Arnviður Bragi Pálmason, Jonn Rói Tórfinnsson og Kristján Páll Steinsson markvörður skoruðu eitt hver. Arnar Þór Fylkisson var sem fyrr segir öflugur í markinu í fyrri hálfleiknum, varði þá 13 skot. Kristján Páll stóð í markinu lengst af seinni hálfleiknum og varði þrjú skot.

Staðan í deildinni á vef HSÍ. (Athugið að þegar fréttin var sett inn voru úrslit kvöldsins ekki komin inn á töfluna á vef HSÍ.)
Tölfræði leiksins á Hbstatz.is.

Þórsarar færðu sig upp í þriðja sætið í Grill 66 deildinni með sigrinum í kvöld, fóru stigi upp fyrir Fjölni sem gerði jafntefli við ungmennalið Fram og upp að hlið Víkings. HK er efst í deildilnni með 15 stig, Valur 11 og Þór og Víkingur níu stig. Liðin hafa að vísu leikið mismarga leiki.

Leikurinn í kvöld var síðasti heimaleikur liðsins á árinu og reyndar fram í síðari hluta janúarmánaðar því næsti heimaleikur er föstudagskvöldið 20. janúar þegar Kórdrengir koma norður. Enn eru þó eftir tveir útileikir fyrir jól, gegn ágætum liðum, ungmennaliði Vals laugardaginn 10. desember og liði Fjölnis föstudaginn 16. desember. Leikurinn gegn Val verður væntanlega eiginleg frumraun bræðranna í þjálfarateyminu, án Halldórs Arnar Tryggvasonar, sem stýrt hefur liðinu síðustu daga.


Kostadin Petrov, maður leiksins, og Kristján Gylfason, varaformaður Handknattleiksdeildar að leik loknum. Koki fékk gjafabréf frá Sprettinum að launum fyrir góða frammistöðu í kvöld. 


Jóhann Geir Sævarsson er kominn aftur í hvítt og rautt, leikur út þessa leiktíð sem lánsmaður frá K.A. Hann skoraði fjögur mörk í leiknum í kvöld.


Halldór Kristinn Harðarson hefur verið meira áberandi á heimaleikjum Þórs sem höfundur og flytjandi lagsins Þorpið mitt, en í kvöld tók hann fram skóna og var í leikmannahópi Þórs. Hann kom þó ekki við sögu í leiknum.


Mæting og stemning á heimaleikjunum í haust hefur verið með ágætum, þó Höllin gleypi fjöldann dálítið. Stuðningurinn skiptir máli og er alltaf til staðar, sama hversu mörg mæta og sama hver andstæðingurinn er.


Ber er hver að baki nema sér bróður eigi. Þjálfarateymið að spekúlera. Halldór Örn Tryggvason, Geir Kristinn Aðalsteinsson og Sigurpáll Árni Aðalsteinsson.


Halldór Örn Tryggvason, sem stýrt hefur liðinu undanfarna daga, og Geir Kristinn Aðalsteinsson, annar af nýju þjálfurum liðsins, ræða málin í seinni hálfleiknum.


Þórsarar fagna stigunum tveimur í leikslok.