Sigurður Marinó lánaður til Magna

Sigurður Marinó Kristjánsson til hægri við undirritun samnings við knattspyrnudeild Þórs 2021. Mynd:…
Sigurður Marinó Kristjánsson til hægri við undirritun samnings við knattspyrnudeild Þórs 2021. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.

Miðjumaðurinn og sá leikreyndasti í meistaraflokki Þórs í knattspyrnu, Sigurður Marinó Kristjánsson, hefur verið lánaður til Magna á Grenivík.

Sigurður Marinó hefur átt við meiðsli að stríða og kom við sögu í aðeins níu leikjum í deild, bikar og deildabikar í fyrra, en hefur ekkert spilað á þessu ári. Hann hefur nú fengið tímabundin félagaskipti í Magna.

Hann á að baki 355 meistaraflokksleiki, flesta þeirra með Þór (327). Hann hefur verið allan sinn feril hjá Þór nema 2018. Af þessum 355 leikjum eru 56 í efstu deild og fjórir Evrópuleikir. Auk þessara leikja eru svo 55 leikir í æfingamótum og leikirnir með meistaraflokki því komnir yfir 400 þegar æfingamót eins og Kjarnafæðismótið eru talin með. Hann kom fyrst við sögu í meistaraflokki 2007 þegar hann kom inn sem varamaður í einum leik í lok tímabils, en árið eftir spilaði hann 22 leiki með Þór í deild og bikar.

Sigurður Marinó er ekki ókunnugur málum hjá Grenivíkurrisunum því hann spilaði með Magna 2018, samtals 28 leiki í 1. deild, bikar og deildabikar.