Sigurhátíð í Sjallanum á lokahófi Þórs

Verðlaunahafar 2025
Mynd - Skapti Hallgrímsson
Verðlaunahafar 2025
Mynd - Skapti Hallgrímsson

Lokahóf meistaraflokks karla í fótbolta fór fram í Sjallanum í gærkvöldi og var þar um sannkallaða sigurhátíð að ræða eftir góða uppskeru sumarsins.

Þórs goðsögnin Guðmundur Benediktsson stýrði hátíðinni af sinni alkunnu snilld.

Sveinn Elías Jónsson, formaður knattspyrnudeildar, var fyrsti ræðumaður kvöldsins og í hans máli kom meðal annars fram að knattspyrnudeildin hefði framlengt samning við Sigurð Heiðar Höskuldsson um að þjálfa liðið áfram næstu þrjú árin.

Reimar Helgason, framkvæmdarstjóri Þórs, steig einnig upp í pontu og fór yfir ýmislegt sem er í gangi í félaginu um þessar mundir og hvatti Þórsara til að vera enn duglegri við að taka þátt í starfinu.

Þórsarinn Geir Kristinn Aðalsteinsson kom næstur fyrir hönd KIA á Íslandi og tilkynnti um val á KIA leikmanni ársins en KIA stóð fyrir vali á manni leiksins á öllum heimaleikjum Þórs í sumar. Sigfús Fannar Gunnarsson var valinn leikmaður ársins af KIA og var leystur út með gjöfum, meðal annars afnot af KIA bifreið í einn mánuð.

Því næst stigu leikmenn á svið með skemmtileg innslög þar sem Hermann Helgi Rúnarsson átti meðal annars hressilega ræðu um þrautargöngu Þórsara í átt að úrvalsdeildarsætinu undanfarin ár.

Að lokum var komið að Sigga Höskulds þar sem hann fór yfir fyrstu árin sín tvö í Þorpinu áður en hann tilkynnti um val á verðlaunahöfum.