Stórsigur í lokaleiknum og úrslitakeppnin handan við hornið

Vaka Bergrún Jónsdóttir tekur þriggja stiga skot gegn Breiðabliki fyrr í vetur
Vaka Bergrún Jónsdóttir tekur þriggja stiga skot gegn Breiðabliki fyrr í vetur

Stórsigur í lokaleiknum og úrslitakeppnin handan við hornið

Þór vann stórsigur gegn b liði Breiðabliks er liðin mættust í lokaleik deildarinnar í leik sem fram fór í Smáranum. Yfirburðir Þórs voru með miklum ólíkindum en þegar upp var staðið var munurinn á liðunum 97 stig, lokatölur leiksins urðu 138:41.

Í raun mátti búast við ójöfnum leik en Breiðablik hafði ekki unnið leik í vetur og á því varð engin breyting í dag.

Allir leikmenn Þórs (10 talsins) settu mark sitt á leikinn og komust á blað. Stigahæst Þórs var Emma Karólína með 22 stig og næst henni kom hin unga Vaka Bergrún með 6 þrista og eitt víti samtals 19 stig.

Framlag leikmanna Þórs: Stig/fráköst/stoðsendingar

Emma Karólína 22/5/2, Vaka Bergrún 19/0/1, Hrefna 19/4/3, Maddie 18/10/10, Tuba 15/16/4, Karen Lind 15/6/2, Eva Wium 10/3/2, Heiða Hlín 9/4/4, Katrín Eva 9/5/1, Valborg Elva 2/2/2.

Framlag leikmanna Breiðabliks: Embla Hrönn 14/2/2, Inga Sigríður 7/6/0, María Vigdís 6/1/1, Björk Bjarna 4/2/1, Selma Pedersen 3/3/2, Lilja Dís 3/2/0, Sandra Iiievska 2/2/0, Þórdís Rún 2/4/0.

Nánari tölfræði  

Lokastaðan

Þar með er ljóst að liðið lauk keppni í öðru sæti deildarinnar með 36 stig (18 sigrar og 6 töp) og fer nú í úrslitakeppni fjögurra efstu liða um laust sæti í efstu deild.

Þar mætast Þór og Snæfell annars vegar og deildarmeistarar Stjörnunnar og KR hins vegar.

Fyrsti leikur Þórs og Snæfells fer fram í íþróttahöllinni 25. mars, leikur tvö fer fram í Hólminum 28. mars og þriðji leikurinn í íþróttahöllinni 31. mars. Fjórði leikurinn er settur á 2. apríl í Hólminum og fimmti leikurinn í höllinni 5 apríl.

Árangur Þórs í vetur er eftirtektarverður en ljóst að Daníel Andri er snúin og snjall þjálfari. Honum hefur lánast að setja saman lið þar sem liðsheildin og gleðin eru þeirra einkennismerki og árangurinn því engin tilviljun. Því verður gaman að fylgjast með liðinu að takast á við nýtt verkefni þ.e. úrslitakeppni fjögurra efstu liða fyrstu deildar og gera þar atlögu að sæti í efstu deild.

Stuðningsmenn Þórs eru hvattir til þess að fjölmenna á leiki liðsins í úrslitakeppninni og njóta þess til hins ýtrasta að takast á við þetta spennandi verkefni með liðinu okkar, stelpunum okkar.

Áfram Þór alltaf, alls staðar