Tap í fyrsta leik úrslitaeinvígis

Mynd úr fjórða leik Þórs og Snæfells. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.
Mynd úr fjórða leik Þórs og Snæfells. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Stjarnan hafði betur gegn Þór í fyrsta leik úrslitaeinvígis 1. deildar kvenna í körfubolta, 94-80. Annar leikur á Akureyri á laugardag kl. 16.

Leikurinn var jafn til að byrja með, Þórsarar með eins stigs forystu eftir fjórar mínútur, en þá kom 12 stiga áhlaup frá Stjörnunni og staðan breyttist úr 7-8 í 19-8 og svo 27-14 þegar fyrsta leikhluta lauk. Stjarnan jók muninn í 15 stig í öðrum leikhluta, en Þórsarar söxuðu svo jafnt og þétt á forskotið, munurinn kominn niður í sex stig fyrir lok fyrri hálfleiks, 44-38. 

Upphaf seinni hálfleiks gaf góð fyrirheit og forskot Stjörnunnar aðeins tvö stig snemma í þriðja leikhluta, 48-46, en þá komu níu stig í röð og Stjarnan aftur komin með 11 stiga forystu. Þetta forskot náðu Þórsarar ekki að vinna upp og þegar leið á leikinn náði Stjarnan mest 19 stiga forskoti, en lokatölurnar 94-80. Stjarnan komin með forystu í einvíginu.

Maddie Sutton var sem oftast fyrr atkvæðamest í Þórsliðinu, með 38 framlagsstig. Hún skoraði 23 stig, tók 20 fráköst og átti sex stoðsendingar. Eva Wium skoraði 18 stig, Karen Lind 12, Hrefna 10, Tuba 6 (10 fráköst), Emma Karólína 6 og Heiða Hlín 5.

Gangur leiksins eftir leikhlutum:

27-14 • 17-24 • 44-38 • 24-20 • 26-22 • 94-80

Ítarleg tölfraæði leiks (kki.is)

Þórsliðið hafði mikla yfirburði í fjölda frákasta, 52 á móti 33, en á móti kemur að tapaðir boltar Þórsara voru 28 á móti 11 hjá Stjörnunni. Skotnýting liðanna var mjög svipuð í prósentum talið, 44% í heildina. Þó skotnýtingin væri svipuð liggur stærsti munurinn í stigafjöldanum í þriggja stiga skotunum. Þar skoraði Stjarnan úr 16 af 34 skotum, en Þórsarar skoruðu úr níu af 22. Af 94 stigum Stjörnunnar komu 54 fyrir utan þriggja stiga línuna.

Áhugaverð tímasetning

Undanúrslitaeinvígin hjá þessum liðum fóru bæði í fjóra leiki, en hefði komið til oddaleiks í öðru eða báðum átti að spila þá í gær, en úrslitaeinvígið að hefjast á laugardag, 8. apríl. Þegar einvígjunum lauk báðum á sunnudag var úrslitaeinvíginu flýtt um þrjá daga í stað þess að gefa þá aukahvíld sem stelpurnar höfðu sannarlega unnið sér inn fyrir með því að klára einvígið í fjórða leik. Þá höfðu leikmenn Stjörnunnar tvisvar ferðast í útileik frá Garðabæ til Reykjavíkur, en leikmenn Þórs tvisvar ferðast til Stykkishólms. Munar nokkrum kílómetrum.

Fréttaritara er ekki kunnugt um af hverju úrslitaeinvíginu var flýtt, hvort einhver óskaði eftir því eða af hverju leikmenn fengu ekki einfaldlega nokkurra daga aukahvíld eftir að fjórða leik lauk í undanúrslitum. Áhugavert reyndar að skoða leikdagana sem fram undan eru. Ef einvíginu hefði ekki verið flýtt hefðu fyrstu tveir útileikir Þórs verið um helgi, laugardagana 8. og 15. apríl, en leikmenn Stjörnunnar þurft að ferðast norður á virkum degi/dögum (eftir því hve langt einvígið yrði). Nú snýst það við. Leikmenn Þórs ferðast suður í gær, á virkum degi, og aftur næsta miðvikudag. Ef kemur til fimmta leiks fer þriðji virki dagurinn í ferðalag í þann leik á sama tíma og tveir laugardagar fara í ferðalag hjá leikmönnum Stjörnunnar. 

Næsti leikur í einvíginu verður í Íþróttahöllinni á Akureyri laugardaginn 8. apríl og hefst kl. 16.