Tap og toppsætið farið - í bili

Þór/KA þurfti að sjá af toppsæti Bestu deildarinnar eftir ósigur gegn Þrótti í Laugardalnum í gær. Löglegt mark tekið af liðinu og sigurmark Þróttara í uppbótartíma gera tapið bæði sárt og ósanngjarnt. Borgar sig að mótmæla? Áhugafólk spyr sig þessarar spurningar í dag.

Þór/KA byrjaði leikinn ekkert sérlega vel, vantaði einhvern kraft í leikinn fyrsta hálftímann, en stelpurnar unnu sig smátt og smátt inn í leikinn og sóttu í sig veðrið. Markalaust var eftir fyrri hálfleikinn, en samt ekki. Allt bendir til þess að aðstoðardómari hafi skipt um skoðun eftir mótmæli Þróttara eftir að Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði á 23. mínútu, mark sem erfitt er að sjá annað en að hafi verið löglegt - og meira að segja laglegt líka. Staðan var enn 0-0 þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka og bæði lið búin að fá færi til að komast yfir, en síðan komu þrjú mörk á tæplega stundarfjórðungi. 

  • 0-1 og þó, nei annars
    23. mínúta: Þór/KA fær hornspyrnu og í framhaldinu skallar Karen María Sigurgeirsdóttir inn á teiginn þar sem Hulda Ósk Jónsdóttir tekur boltann á lofti og skorar. Dómari dæmir mark, aðstoðardómari hleypur af stað í átt að miðju, eins og honum ber þegar skorað er löglegt mark, bekkurinn hjá Þrótti mótmælir, aðstoðardómarinn stoppar, snýr við og lyftir flagginu. Dómarinn skiptir um skoðun með aðstoðardómaranum og dæmir markið af. Löglegt mark tekið af Þór/KA, rándýrt þegar upp var staðið.
  • 1-0 - 80. mínúta: Tanya Laryssa Boychuk fær stungusendingu inn á teiginn frá Kötlu Tryggvadóttur og nær að pota boltanum áfram í markið.
  • 1-1 - 84. mínúta: Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir jafnar með skoti fyrir utan teig eftir sendingu frá Söndru Maríu Jessen. Þetta var fyrsta mark hennar í efstu deild.
  • 2-1 - 92. mínúta: Freyja Karín Þorvarðardóttir skorar með skalla eftir hornspyrnu.

Þór/KA er með níu stig eftir fimm leiki, stigi á eftir Val og Þrótti. Tveir leikir eru enn eftir í fimmtu umferðinni.

Næsti leikur liðsins verður á laugardag, 27. maí, í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar, en þá mæta stelpurnar liði Keflavíkur í Keflavík.