Woo jafnaði í blálokin

Jewook Woo jafnaði leikinn í blá lokin. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Jewook Woo jafnaði leikinn í blá lokin. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þór og Grindavík skildu jöfn eftir að Jewook Woo jafnaði leikinn á 94 mínútu með frábæru marki er hann tók boltann framhjá varnarmanni Grindvíkinga á vítateigslínunni og þrumaði honum með vinstri fæti niðri í hægra hornið, óverjandi fyrir markvörð Grindavíkur.

Grindvíkingar komust yfir um miðbik fyrri hálfleiks er Dagur Ingi Hammer komst einn gegn Aroni Birki í markinu og kláraði laglega í fjærhornið en fram að markinu höfðu Grindvíkingar verið líklegri til að skora. Þeir áttu svo eftir að fá eitt dauðafæri til viðbótar áður en flautað var til hálfleiks. Í seinni hálfleik voru Þórsarar mun meira með boltann en gekk bölvanlega að skapa sér afgerandi færi, en þónokkur hálffæri og góðar leikstöður fóru forgörðum áður en Woo jafnaði í lokin eins og áður sagði.

Leikmaður Grindvíkinga, Thiago Ceijas fékk svo rauða spjaldið rétt áður en lokaflautið gall fyrir glórulausa tæklingu á leikmann Þórs.