Ábendingar um heiðursmerki

Útbúið hefur verið eyðublað hér á heimasíðunni fyrir félagsfólk sem vill koma með ábendingar um einstaklinga sem ættu skilið að fá heiðursmerki félagsins.

Vinnubrögð og aðferðir við veitingu heiðursmerkja og ferli þeim tengt, sem og varðandi heiðursfélaga, er í endurskoðun. Ætlunin er að bæta upplýsingaflæði og möguleika almenns félagsfólks til að hafa áhrif og koma með ábendingar um fólk innan félagsins sem ætti skilið að fá heiðursmerki. Í valmyndinni hér efst á síðunni er ábending um heiðursmerki sem hægt er að smella á og fylla út og senda. 

Samkvæmt reglugerð félagsins um heiðursmerki er hægt að veita brons-, silfur- eða gullmerki. Almennt er það þannig að einstaklingur getur ekki fengið gullmerki nema hafa fengið silfurmerki áður, og ekki fengið silfurmerki nema hafa fengið bronsmerki áður - nema hvað aðalstjórn getur veitt undanþágu frá þessari reglu við sérstakar aðstæður. 

Nánar má lesa um heiðursmerki hér á heimasíðunni - í valmyndinni undir > Félagið > Sagan og heiðursmerki. Þar eru tenglar á pdf-skjöl með reglugerðinni, sem og listum yfir þá einstaklinga sem hlotið hafa heiðursmerki félagsins og lista yfir heiðursfélaga. 

Á meðan unnið er að því að endurskoða ferlið og fara yfir verklag og aðferðir verða ekki veitt nein heiðursmerki, sem þýðir að á samkomunni Við áramót sem verður í Hamri föstudaginn 6. janúar verða engin slík merki veitt. Ætlunin er að taka upp þráðinn að nýju af krafti á 108 ára afmæli félagsins þann 6. júní 2023.