10. flokkur karla og stúlknaflokkur deildarmeistarar tímabilið 2021-2022

Síðustu helgi fóru fjögur lið frá Þór suður í Grafarvog og léku til úrslita í sínum deildum. Hóparnir sem komust í úrslit hjá Þór voru 9. flokkur karla, 10. flokkur karla, unglingaflokkur karla og stúlknaflokkur.

Gamanið hófst á föstudaginn þegar 10. flokkur mætti Ármanni í úrslitum 2. deildar. Leikurinn var gríðarlega jafn framan af þar sem lið skiptust á að leiða og varð munurinn aldrei meira en fimm stig hvoru liðinu í vil fyrstu þrjá fjórðunga. Á lokasprettinum skiptu Þórsarar um gír og unnu síðasta fjórðung 20-6 og unnu þar með leikinn með tólf stigum. Atkvæðamestur Þórsara var Viktor Smári Inguson með 23 stig, 6 fráköst og 2 stoðsendingar og var kjörinn maður leiksins. Næst á eftir honum voru þeir Hákon Hilmir Arnarsson og Fannar Ingi Kristínarson. Allir aðrir skiluðu einnig góðu framlagi. Þjálfari liðsins er Daníel Andri Halldórsson.

Tölfræði leiksins

Beint í kjölfarið hófst leikur unglingaflokksins gegn Valsmönnum í úrslitum 2. deildar. Þórsarar byrjuðu leikinn betur og unnu fyrstu tvo fjórðuna og leiddu Valsara í hálfleik 46-40 þrátt fyrir slæma skotnýtingu. Í síðari hálfleik komu Valsmenn inn með talsvert meiri kraft en í þeim fyrri meðan Þórsarar áttu enn í erfiðleikum með nýtingu þriggja stiga skota. Staðan eftir þrjá leikhluta 65-74 fyrir Völsurum. Í síðasta fjórðung juku Þórsarar ákefð í vörn og náðu að minnka forskot Valsara en það dugði ekki til og leikurinn endaði 82-89 fyrir Valsmönnum. Þjálfarar liðsins eru Bjarki Ármann Oddsson og Jón Ingi Baldvinsson.

Atkvæðamestir í liði Þórsara voru þeir Ragnar Ágústsson, Smári Jónsson og Ólafur Snær Eyjólfsson.

Tölfræði leiksins

Á laugardeginum mættu stelpurnar í stúlknaflokki liði Aþenu í úrslitaleik 2. deildar. Aþena spiluðu vörn af mikilli ákefð strax í upphafi leiks en Þórsarar leystu það með mikilli yfirvegun og leiddu leikinn í hálfleik 45-33. Þórsstelpur voru sammála í hálfleik um að slaka alls ekki á þrátt fyrir ágætis forskot og komu inn með mikinn kraft í þriðja fjórðung sem þær unnu með 10 stigum og fóru því með 22 stiga forskot inn í síðasta fjórðung leiksins. Aþenustelpur juku hraða leiksins og náðu að klóra talsvert í bakkann en Þórsarar náðu tökum á leiknum á ný og kláruðu lokamínúturnar með miklum krafti. Þórsarar unnu með 17 stigum. Eini tapleikur stúlknaflokksins á tímabilinu var í bikarkeppni gegn Íslandsmeistaraliði Hauka.

Atkvæðamest í liði Þórs var Eva Wium Elíasdóttir með 41 stig og 10 fráköst. Næst framlagshæst í liði Þórs var hún Emma Karólína Snæbjarnardóttir, að keppa fimm árum uppfyrir sig, með 18 stig og 15 fráköst og aðrar skiluðu flottu framlagi. Þjálfari liðsins er Daníel Andri Halldórsson.

Tölfræði leiksins 

Í síðasta leik Þórsara þessa helgi mættu 9. flokks strákarnir ÍR-ingum í úrslitum 3. deildar á sunnudagsmorgni. Fyrri hálfleikur var gríðarlega jafn leikur þar sem lið skiptust á körfum en Þórsarar komust í forskot fyrir síðasta fjórðung með frábærum þriðja leikhluta sem fór 27-13, Þór í vil. ÍR-ingar gáfust hinsvegar ekki svo auðveldlega upp og jöfnuðu leikinn í lok venjulegs leiktíma og fór leikurinn í framlengingu. Í framlengingu áttu ÍR-ingar meira bensín eftir á tanknum sínum og sigruðu leikinn naumlega. Það var mikið skorað í þessum leik en lokatölur voru 82-77 fyrir ÍR þrátt fyrir gríðarlega flotta frammistöðu Þórsara. Atkvæðamestir í liði Þórs voru Ýmir Hugh Travisson Heafield, Ísak Otri Finnsson, Daníel Davíðsson og Aron Geir Jónsson. Þjálfari hópsins er Hlynur Freyr Einarsson.

Tölfræði leiksins 

Myndir af sigurliðum Þórs og mönnum leiksins sinna leikja. 

10. flokkur karla

Stúlknaflokkur

Viktor Smári Inguson maður leiksins með 23 stig og 6 fráköst.

Eva Wium Elíasdóttir maður leiksins með 41 stig og 10 fráköst.

 

Körfuknattleiksdeild Þórs óskar hópunum til hamingju með sinn árangur á því tímabili sem líður.