Aftur sigur með marki í lokin

Ragnar Óli Ragnarsson fagnar ásamt liðsfélögunum. Mynd: Páll Jóhannesson
Ragnar Óli Ragnarsson fagnar ásamt liðsfélögunum. Mynd: Páll Jóhannesson

Þór vann annan leikinn í röð með marki á lokamínútum leiks þegar Ragnar Óli Ragnarsson skoraði annað mark liðsins í 2-1 sigri á Þrótti í Lengjudeild karla í gærkvöld.

Þórsarar byrjuðu illa, lentu snemma undir og fengu á sig vítaspyrnu um miðjan fyrri hálfleik. Aron Birkir Stefánsson sá um að halda liðinu inni í leiknum og varði spyrnuna frá Hinriki Harðarsyni. Skömmu seinna jöfnuðu Þórsarar í stað þess að lenda 2-0 undir eftir vítaspyrnuna.

  • 0-1 - Hinrik Harðarson (7')
    0-1 - Aron Birkir Stefánsson - varið víti (23')
  • 1-1 - Alexander Már Þorláksson (27'). Stoðsending: Mark Sörensen.
  • 2-1 - Ragnar Óli Ragnarsson (90'). Stoðsending: Mark Sörensen.

Með mörkum á lokamínútum leiks í tveimur síðustu leikjum hefur Þórsliðið náð að klifra upp töfluna og er nú allt í einu aðeins einu stigi frá umspilssæti Lengjudeildarinnar, en hefði með jafnteflum í tveimur síðustu leikjum verið í fallsæti á markatölu, með jafnmörg stig og Selfoss og Þróttur, en lakari markamun. Þetta sýnir hve stutt er á milli, en á móti þessum tveimur sigrum hafði Þórsliðið einmitt á undan tapað tveimur leikjum á lokaandartökum leiksins.

Þór er nú í 6. sæti deildarinnar með 23 stig að loknum 17 leikjum, en Vestri er sæti ofar með 24 stig og Leiknir þar fyrir ofan með 26 stig. 

Leikskýrsla: Þór - Þróttur R. - (ksi.is)

Leikurinn var í beinni á YouTube-rás Lengjudeildarinnar og þar er einnig hægt að horfa á upptöku af leiknum. Hér að neðan er farið beint inn á mörkin og vítaspyrnuna í upptökunni.

0-1

Varið víti

1-1

2-1