Akureyri Open: fjölmennt og frábærlega heppnað mót

Alexander Veigar Þorvaldsson sigraði í einmenningi í 501 á opnu móti píludeildar Þórs, Akureyri Open, í gær. Brynjar Þór Bergsson og Kristján Þorsteinsson unnu keppnina í tvímenningi á föstudagskvöld.

Metþátttaka var í mótinu og komust færri að en vildu. Í tvímenningi keppti 31 par, samtals 62 keppendur og spilaðir 112 leikir samtals í riðlunum, 15 leikir í útsláttarkeppnininni og 15 í keppninni um forsetabikarinn, samtals 142 leikir í tvímenningnum. Í einmenningnum í gær tóku 69 keppendur þátt, spilaðir voru 264 leikir í riðlakeppninni, 33 í keppninni um forsetabikarinn og 39 í aðalútsláttarkeppninni, samtals 336 leikir í einmenningi. Samtals fóru því fram 478 viðureignir á föstudagskvöld og laugardag í Akureyri Open pílumótinu.

Píludeildin lagði mikla vinnu í framkvæmd og umgjörð mótsins og til að mynda voru keppendur í úrslitaviðureign í einmenningi og í úrslitaviðureign um forsetabikarinn kynntir inn með inngöngulögum eins og á stærstu mótum, en að vísu ekki með sömu stemningu og áhorfendafjölda og í Ally Pally. Keppendur frá píludeild Þórs unnu til nokkurra verðlauna á mótinu, en aðkomumenn unnu aðalkeppnina, bæði í einmenningi og tvímenningi. Hér að neðan má sjá myndband frá kynningu keppenda í úrslitaviðureignunum í einmenningi.

Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildarinnar, var virkilega ánægður með mótið þegar við heyrðum í honum í dag. „Mótið gekk virkilega vel fyrir sig og var mikil ánægja meðal keppenda með mótið í heild sinni. Mikill fjöldi keppenda var í aðstöðunni alla helgina og er það alveg frábært hversu vel heppnaðist. Eðlilega var stundum smá bið á milli leikja en mótsstjórar reyndu sitt besta til að halda mótinu fljótandi. Við þökkum öllum þeim sem lögðu land undir fót og gerðu sér ferð til okkar. Einnig viljum við þakka okkar meðlimum og sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg við undirbúning og gerðu mótið jafn glæsilegt og það var. Við hlökkum til að halda Akureyri Open á næsta ári og gera mótið ennþá stærra og glæsilegra!" segir Davíð Örn, en hann komst sjálfur í undanúrslit í keppni í tvímenningnum á föstudagskvöldið.
 

Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildar Þórs, ásamt sigurvegaranum í einmenningi, Alexander Veigari Þorvaldssyni, sem hlaut meðal annars Scolia Home-sett að launum fyrir sigurinn. Myndin er frá píludeild Þórs. Fleiri myndir frá mótinu eru komnar í myndaalbúm. Smellið á myndirnar til að opna albúmið.

Tvímenningur

Keppni í tvímenningi fór fram á föstudagskvöldið og 31 lið sem tók þátt. Spilað var í fjórum riðlum og fóru 16 lið áfram í útsláttarkeppni, fjögur efstu úr hverjum riðli.

Í undanúrslitum voru það Árni Ágúst Daníelsson og Alexander Veigar Þorvaldsson sem unnu 4-3 sigur á Steinþóri Má Auðunssyni og Tristani Yl Guðjónssyni. Í hinni undanúrslitaviðureigninni voru það Brynjar Þór Bergsson og Kristján Þorsteinsson sem unnu öruggan 4-1 sigur gegn Andra Geir Viðarssyni og Davíð Erni Oddssyni.

Þeir Brynjar Þór og Kristján unnu svo 4-3 sigur gegn Árna Ágústi frá PFR og Alexander Veigari úr Pílufélagi Grindavíkur í úrslitaleiknum.


Kristján Þorsteinsson og Brynjar Þór Bergsson, sigurvegarar í tvímenningi. Myndin er frá píludeild Þórs.

Sextán pör nýttu sér rétt til að spila um forsetabikarinn í tvímenningnum. Þar voru það Garðar Gísli Þórisson og Hákon Atli Aðalsteinsson, báðir frá píludeild Þórs, sem fóru alla leið, en þeir unnu öruggan 4-0 sigur á Eyþór Jónssyni og Róberti Daða Heimissyni í úrslitaviðureigninni.


Garðar Gísli Þórisson og Hákon Atli Aðalsteinsson, handhafar forsetabikarsins í tvímenningi.

Einmenningur

Keppni í einmenningi hófst í gærmorgun og stóð langt fram á kvöld. Svo mikil var þátttakan að tvískipta varð riðlunum til að hafa nógu mörg spjöld fyrir keppnisleiki og upphitun. Ekki hægt að spila alla riðlana samtímis. Þegar upp var staðið höfðu verið spilaðir 264 leikir, en keppendur voru 69. Skipt var í átta riðla með 8-9 keppendum í hverjum riðli. Fimm efstu úr hverjum riðli komust svo áfram í útsláttarkeppni, en hinum gafst tækifæri til að keppa um forsetabikarinn svokallaða.

Í undanúrslitum í einmenningi áttust við Alexander Veigar Þorvaldsson og Orri Hjaltalín, báðir úr Pílufélagi Grindavíkur, annars vegar og Viðar Valdimarsson frá Þór og Árni Ágúst Daníelsson frá Pílufélagi Reykjavíkur hins vegar. Alexander Veigar vann Orra örugglega, 5-0. Hin viðureignin var jafnari þar sem Viðar sigraði Árna Ágúst 5-4.

Í úrslitaviðureigninni vann svo Alexander Veigar nokkuð öruggan sigur á Viðari, 6-2. Gullið fór til Grindavíkur en silfrið er Þórsara.

Forsetabikarinn (consolation knockout)

Alls nýttu 36 keppendur sem ekki komust áfram úr riðlunum sér það tækifæri að keppa um forsetabikarinn. Þar fóru í undanúrslit Atli Víðir Arason sem mætti Boga Adolfssyni og Hinrik Þórðarson sem mætti Edgars Kede Kedza. Hinrik vann Edgars örugglega, 4-0, og Atli Víðir sigraði Boga 4-3. Hinrik vann svo Atla Viði örugglega í úrslitaviðureigninni, 5-0, og hampaði því forsetabikarnum. Hinrik er í píludeild Þórs og einn af stofnendum og fyrsti formaður deildarinnar þegar Pílufélag Akureyrar rann inn í Þór og varð að píludeild félagsins.


Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildar Þórs, og Hinrik Þórðarson, handhafi forsetabikarsins í einmenningi.


Sigurvegarinn í einmenningi og sigurvegarinn í keppninni um forsetabikarinn fengu báðir Scolia Home sett í verðlaun.