Andri Hjörvar kveður í bili

Andri Hjörvar fagnar sætum Þórssigri!
Andri Hjörvar fagnar sætum Þórssigri!

Andri Hjörvar Albertsson mun hætta störfum sem þjálfari í yngri flokkum Þórs í knattspyrnu um miðjan aprílmánuð.

Andri Hjörvar óskaði eftir því á dögunum að hætta hjá Þór til að taka við stöðu yfirþjálfara hjá Haukum og varð barna- og unglingaráð Þórs við ósk Andra sem hyggst flytjast búferlum suður ásamt fjölskyldu sinni síðar á árinu.

Andri Hjörvar hefur verið yngri flokka þjálfari í fullu starfi undanfarið eitt og hálft ár og hefur í vetur þjálfað 3.flokk karla auk 6.flokks karla og kvenna.

Andri hefur gegnt hinum ýmsu þjálfarastörfum hjá félaginu undanfarin tíu ár, var um skeið yfirþjálfari yngri flokka auk þess sem hann hefur komið að þjálfun beggja meistaraflokkanna okkar, bæði sem aðalþjálfari og aðstoðarþjálfari og staðið sig gríðarlega vel í öllum sínum störfum fyrir félagið.

Um leið og við kveðjum Andra með miklum söknuði óskum við honum góðs gengis í nýjum verkefnum og ítrekum þakklæti fyrir frábært framlag til félagsins á undanförnum árum. Við berum þá von í brjósti að félagið muni njóta krafta Andra Hjörvars í þjálfun að nýju síðar.

Andri Hjörvar ásamt Arnari Bill, fræðslustjóra KSÍ.