Þór mætir Fjölni í undanúrslitum - Arnór Þorri markakóngur deildarinnar

Arnór Þorri Þorsteinsson skoraði flest mörk allra í Grill 66 deild karla í vetur, 120 mörk í 18 leikjum. Fram undan eru tveir eða þrír leikir gegn Fjölni í undanúrslitum deildarinnar í keppni um sæti í Olísdeildinni á næsta tímabili. 

Keppni lauk í Grill 66 deildinni 31. mars, en eins og áður hefur verið farið yfir hér eru Þórsarar á leið í fjögurra liða úrslitakeppni um laust sæti í Olísdeildinni á næsta tímabili. Ungmennaliðin í deildinni mega ekki fara upp um deild, en hin fimm liðin röðuðust þannig: 1. HK, 2. Víkingur, 3. Fjölnir, 4. Þór, 5. Kórdrengir. Efsta liðið fer beint upp, en hin fjögur fara í úrslitakeppni.

Þórsarar mæta Fjölni í undanúrslitum. Fyrst á útivelli föstudaginn 14. apríl kl. 18 og síðan í Íþróttahöllinni á Akureyri mánudaginn 17. apríl kl. 18. Þriðji leikur verður síðan á heimavelli Fjölnis fimmtudaginn 20. apríl, ef þarf. Vinna þarf tvo leiki til að fara áfram. Reikna má með að útileik(jum) verði streymt á YouTube-rás Fjölnis.

Þórsarar fengu eitt stig úr viðureignum þessara liða í deildinni, en báðir leikirnir fóru fram fyrir áramót.
23. september: Þór – Fjölnir 27-29
16. desember: Fjölnir – Þór 24-24

Arnór Þorri markakóngur deildarinnar

Samkvæmt tölum á Hbstatz.is er Arnór Þorri Þorsteinsson markakóngur deildarinnar með 120 mörk. Hann er þó ekki með flest mörk að meðaltali í leik. Þegar skoðaðar eru meðaltalstölur yfir skoruð mörk, varin skot og svo framvegis eru þær tölur ekki að fullu áreiðanlegar þar sem leikjafjöldi hefur eitthvað skolast til og nokkrir leikmenn skráðir með 19 eða 20 leiki þegar liðin spiluðu aðeins 18 leiki. Næstur Arnóri Þorra í markaskorun Þórsliðsins kemur Kostadin Petrov, en hann er í 19. sæti yfir deildina alla með 73 mörk þó hann hafi aðeins spilað með Þór fram að jólum.

Arnar Þór Fylkisson varði 169 skot í leikjum deildarinnar og er þar í 4. sæti, en Stefán Pétursson, markvörður ungmennaliðs Vals varði flest, 204 skot. Kristján Páll Steinsson er þar í 13. sæti með 68 varin skot.

Þórsliðið er í 3. sæti yfir fjölda brottvísana, en leikmenn fengu samtals 72svar sinnum 2ja mínútna brottvísun – fjarverandi í 144 mínútur. Aðeins tvö efstu lið deildarinnar, Víkingur og HK, fengu fleiri brottvísanir en Þórsarar, Víkingar með 78 og HK 77. Fjórum sinnum fengu Þórsarar að líta rauða spjaldið, en fimm lið eru jöfn með fimm rauð spjöld hvert. Þórsarar skoruðu næstfæst mörk liða í deildinni, 507. Aðeins Kórdrengir skoruðu færri, 456 mörk, en HK skoraði flest, 609.