Auðunn lánaður til Dalvíkur/Reynis

Auðunn Ingi í leik með Þór.
Auðunn Ingi í leik með Þór.

Auðunn Ingi Valtýsson hefur verið lánaður frá Þór til Dalvíkur/Reynis.

Auðunn, sem er á tuttugasta og fyrsta aldursári, fæddur 2002, er samningsbundinn Þór til ársloka 2024 en gerir lánssamning við Dalvík/Reyni til haustsins 2023.

Auðunn hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið átján leiki fyrir meistaraflokk Þórs en hann spilaði þrjá leiki í deild og bikar á síðustu leiktíð og stóð þess utan vaktina sem varamarkvörður fyrir Aron Birki Stefánsson.

Hjá Dalvík/Reyni kemur Auðunn til með að spila undir stjórn Dragan Stojanovic sem tók við liði Dalvíkur/Reynis í haust en Dalvík/Reynir mun leika í 2.deild næsta sumar eftir að hafa komist upp úr 3.deildinni síðasta sumar.

Auðunn hittir fyrir jafnaldra sína, Bjarma Fannar Óskarsson og Aron Mána Sverrisson á Dalvík en saman fóru þeir upp í gegnum alla yngri flokka Þórs. Alls voru níu uppaldir Þórsarar í liði Dalvíkur/Reynis síðasta sumar.

Óskum Auðunni til hamingju með vistaskiptin og hlökkum til að fylgjast með honum öðlast meistaraflokksreynslu á Dalvík.