Handbolti: Þórsarar mæta Fjölni í einvígi um sæti í efstu deild

Brynjar Hólm Grétarsson skoraði 13 af 24 mörkum Þórsara í tveggja marka sigri á Ísfirðingum í Herði …
Brynjar Hólm Grétarsson skoraði 13 af 24 mörkum Þórsara í tveggja marka sigri á Ísfirðingum í Herði í kvöld.

Þórsarar sóttu gull í greipar Ísfirðinga í kvöld þegar liðin mættust í oddaleik undanúrslita Grill 66 deildar karla í handbolta. Tveggja marka sigur tryggir liðinu sæti í úrslitaeinvígi við Fjölni um það hvort liðið fylgir ÍR upp í Olísdeildina. 

Leikurinn var í járnum allan tímann og jafnt á flestöllum tölum lengst af fyrri hálfleiknum. Heimamenn í Herði náðu tveggja marka forystu þegar leið á fyrri hálfleikinn og staðan 12-10 í leikhléi. Tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleiknum voru heimamanna og munurinn orðinn fjögur mörk, 14-10, en Þórsarar náðu að jafna í 15-15 og komast yfir í 15-16 þegar rúmur stundarfjórðungur lifði leiks. Aftur náðu heimamenn í Herði tveggja marka forystu þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum, 20-18, en þá komu fjögur mörk í röð frá Þórsurum og staðan orðin 20-22 Þór í vil þegar rúmar fimm mínútur voru eftir. Heimamenn minnkuðu muninn í eitt mark, en Þórsarar svöruðu þegar þrjár og hálf mínúta var eftir. Staðan þá orðin 22-24 og það urðu lokatölurnar, ekkert skorað á lokamínútunum. 

Dyggilega studdir af stuðningsfólki sem lagði leið sína með rútu vestur til Ísafjarðar í dag unnu Þórsarar góðan sigur þar sem spilandi aðstoðarþjálfarinn, Brynjar Hólm Grétarsson, skoraði 54% marka Þórs og markvörðurinn Kristján Páll Steinsson varði 40% skota Ísfirðinga. 

Hörður
Mörk: Jonathan C. Santos 7, Jose Esteves Neto 3, Otto Karl Kont 3, Tugberk Catkin 2, Guillerme Carmignoli Andrade 2, Daníel Wale Adeleye 1, Jonas Maier 1, Endijs Kusners 1.
Varin skot: Jonas Maier 17 (42,9%).
Refsimínútur: 10.

Þór
Mörk: Brynjar Hólm Grétarsson 13, Friðrik Svavarsson 3, Aron Hólm Kristjánsson 3, Halldór Kristinn Harðarson 1, Arnór Þorri Þorsteinsson 1, Sveinn Aron Sveinsson 1, Þormar Sigurðsson 1, Sigurður Ringsted Sigurðsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 15 (40,5%).
Refsimínútur: 8.

Með sigrinum vann Þór einvígið, 2-1, og tryggði sér sæti í úrslitaeinvígi við Fjölni um laust sæti í Olísdeildinni á komandi keppnistímabili. Fyrsti leikdagur er laugardagurinn 20. apríl, en það er Fjölnir sem á heimavallarréttinn þar sem liðið endaði ofar en Þór í deildarkeppninni. 

Leikdagar í einvígi Þórs og Fjölnis eru samkvæmt dagatali HSÍ:
1. Laugardagur 20. apríl (Dalhús)
2. Þriðjudagur 23. apríl (Höllin, Akureyri)
3. Föstudagur 26. apríl (Dalhús)
4. Mánudagur 29. apríl (Höllin, Akureyri) - ef þarf
5. Fimmtudagur 2. maí (Dalhús) - ef þarf