Diplómamót í Hnefaleikum á Akureyri

Lilja Lind Torfadóttir að fá ráð frá þjálfaranum sínum Daða Ástþórssyni
Lilja Lind Torfadóttir að fá ráð frá þjálfaranum sínum Daða Ástþórssyni

Diplómahnefaleikar er tæknileikur í boxi fyrir krakka á aldrinum 10 – 19 ára, þar sem þau eiga að sýna tækni og leikni í hnefaleikum. Markmiðið er ekki að sigra andstæðinginn heldur fá þau fá einkunn byggða á frammistöðu sinni í hringnum. Einkunnin er gefin út frá tækni í höggum, vörn og jafnvægi/fótaburði.

Mótið var það stærsta sem hefur verið haldið á Akureyri hingað til en 3 lið sendu samtals 26 keppendur til viðbótar við 6 keppendur frá Hnefaleikadeild Þórs.
Haldin voru 3 „mót“ þannig að hver keppandi fékk 3 leiki.

Igor Biernat var fyrstur í hringinn fyrir Þórsara og keppti hann við Hafþór Magnússon úr Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar. Hafþór er landsliðsmaður í hnefaleikum og því um mjög góða viðureign fyrir Igor að ræða. Igor keppti svo einnig við Mikael Hrafn Helgason og Ólíver Örn Davíðsson sem einnig eru í landsliðinu. Við erum mjög stolt af frammistöðu Igors um helgina og er hann nú hársbreidd frá því að vinna sér inn silfurmerki Hnefaleikasambands Íslands.

Lilja Lind Torfadóttir og Valgerður Telma Einarsdóttir kepptu sínar fyrstu viðureignir en þær kepptu við hvor aðra þar sem þetta var þeirra fyrsta reynsla í hringnum og stóðu þær sig mjög vel. Þær unnu sér inn diplómaviðurkenningu HNÍ í sinni fyrstu viðureign og eru svo vel á veg komnar að vinna sér inn bronsmerki HNÍ.

Sveinn Sigurbjarnason mætti Nóel Frey Ragnarssyni í sinni fyrstu viðureign og var hrikalega beittur. Nóel er einnig í landsliðinu og var því um mjög erfiða viðureign fyrir Svein að ræða þar sem hann á aðeins 3 leiki að baki. Svenni sýndi að hann á heima í hringnum með þeim bestu því hann leyfði Nóel ekki að komast upp með neitt kjaftæði og hélt honum á tánum allan tímann. Sveinn mætti svo Kristni Ómari Ágústsyni sem einnig er í Þór og Davíð Ísak Filipovic Karlsson í sínum lokaleik. Sveinn var mjög flottur í öllum sínum viðureignum og vann sér inn bronsmerki HNÍ á mótinu.

Alan Mackiewicz mætti Eriku Nótt Einarsdóttir úr Hnefaleikafélagi Reykjavíkur. Erika er í landsliðinu og ríkjandi Íslandsmeistari í stúlknaflokki undir 53 kg. Hann mætti síðan Patrik Sólimann Bjarnasyni úr Hnefaleikafélagi Reykjaness í næstu viðureign og stóð sig ótrúlega vel, og loks mætti hann fyrrnefndum Hafþóri Magnússyni. Alan endaði mótið með að ná sér í silfurmerki HNÍ og erum við ótrúlega stolt af honum.

Kristinn Ómar Ágústsson ákvað að reima á sig hanskana eftir smá pásu vegna veikinda og keppti tvo mjög góða leiki. Fyrsti leikurinn var gegn Sindra Thor Einarssyni sem var að keppa sinn fyrsta leik og var mun yngri og óreyndari. Kristinn gerði virkilega vel og sýndi hvernig diplómabox á að virka með því að boxa létt og fínlega við hann. Hann hleypti honum í öll sín högg og vandaði sig við að sýna rétta og fjölbreytta vörn á móti og sló mjög létt en tæknilega rétt högg til baka og passaði sig að vera ekki að slá hann í höfuðið þannig að honum liði alltaf vel inni í hringnum. Kristinn fór svo seinni leikinn gegn Sveini og fékk þá aðeins að reyna meira á þolið í þeirri viðureign og stóðst það próf með glæsibrag. Kristinn vann sér inn bronsmerki HNÍ á mótinu.

Páll Jóhannesson mætti á sunnudeginum og tók nokkrar myndir og þær er hægt að skoða hérna Diplomamót í hnefaleikum | Þór (thorsport.is)
Við þökkum Palla kærlega fyrir það.

Einnig þökkum við HFH, HFR og HR fyrir frábæra skemmtun og stórgott mót.