Egill Orri og Pétur Orri gera sinn fyrsta samning

Egill Orri Arnarsson og Pétur Orri Arnarson.
Egill Orri Arnarsson og Pétur Orri Arnarson.

Pétur Orri Arnarson og Egill Orri Arnarsson hafa skrifað undir sinn fyrsta samning við knattspyrnudeild Þórs. Báðir gera þeir samning til ársins 2025.

Pétur Orri er á sextánda aldursári og því á eldra ári í 3.flokki. Hann hefur æft reglulega með meistaraflokki í vetur, spilaði einn leik með aðalliði Þórs í Kjarnafæðimótinu og var í hóp í fyrsta leik Þórs í Lengjubikarnum.

Pétur er miðvörður sem á tvo landsleiki að baki fyrir U15 ára landslið Íslands og hefur verið í æfingahópi U16 í vetur.

Egill Orri er á fimmtánda aldursári, á yngra ári í 3.flokki og hefur líkt og Pétur verið viðloðandi meistaraflokk í vetur. Hann lék með aðalliði Þórs í Kjarnafæðimótinu og kom inn af bekknum í 4-1 sigri á Keflavík í fyrsta leik Þórs í Lengjubikarnum á dögunum.

Egill er vinstri bakvörður og hefur leikið þrjá landsleiki fyrir U15 ára landslið Íslands og hefur verið í æfingahópi landsliðsins í vetur. Egill Orri var hluti af Íslandsmeistaraliði Þórs í 4.flokki á síðustu leiktíð og fór til reynslu hjá ítalska úrvalsdeildarliðinu Torino undir lok síðasta árs.

Báðir eru þeir hluti af Norðurlandsúrvali KSÍ sem heldur utan til Danmerkur á morgun þar sem leiknir verða æfingaleikir við unglingalið Lyngby og AB.

Við óskum drengjunum til hamingju með sína fyrstu samninga.

Pétur Orri ásamt Birki Hermanni Björgvinssyni, fulltrúa úr stjórn knattspyrnudeildar.

Egill Orri ásamt Birki Hermanni Björgvinssyni, fulltrúa úr stjórn knattspyrnudeildar.