Eitt stig í roki og regni á Reykjanesi

Þórsarar sóttu aðeins eitt stig til Njarðvíkur þegar liðin skildu jöfn, 2-2, í 8. umferð Lengjudeildarinnar í roki og rigningu þar syðra í dag. Stigið í dag er það fyrsta sem liðið fær í fjórum útileikjum í Lengjudeildinni það sem af er sumars.

Heimamenn í Njarðvík komust tvisvar yfir í leiknum. Staðan 1-1 í leikhléi, en okkar menn fengu mjög álitlega sókn undir lok hálfleiksins sem ekki nýttist. Misnotuð vítaspyrna Þórsara í seinni hálfleik kom eiginlega ekki að sök því í framhaldi af vítaspyrnunni fengu Þórsarar tvisvar horn og skoruðu beint úr því síðara. Bæði lið áttu hættuleg færi á lokamínútunum sem ekki nýttust. Hornspyrnur okkar manna voru hættulegar og í einni slíkri fór boltinn í þverslána. Njarðvíkingar reyndara einnig með mjög góð færi á lokamínútunni og í viðbótartímanum.

Í viðtali við vefmiðilinn fotbolti.net kvaðst Þorlákur Már Árnason vera sáttur við hvernig okkar menn brugðust við eftir slaka byrjun og tók með sér jákvæða punkta út úr leiknum. Hann sagði þó að honum hafi fundist Þórsarar hafa átt að vinna leikinn, en aftur á móti hafi Njarðvíkingar verið hættulegir í skyndisóknum og hefðu alveg getað stolið sigrinum.

1-0  -  Þorsteinn Örn Bernharðsson (6‘)
Njarðvíkingar taka horn, boltinn skallaður hátt í loft upp á móti vindinum og virðist vera misskilningur á milli varnarmanna hver ætli að taka annan bolta, en leikmaður Njarðvíkur misskildi ekki neitt heldur setti fótinn í boltann þegar hann kom niður og skoraði.

1-1  -  Elmar Þór Jónsson (20‘). Stoðsending: Alexander Már Þorláksson
Fyrirgjöf frá hægri, Alexander Már setur hann í þverslá og Elmar nær frákastinu og skorar örugglega af stuttu færi.

2-1  -  Oumar Diouck (52‘)
Okkar menn verulega ósáttir við dómara leiksins þegar Diouck kemur Njarðvíkingum yfir og ekki annað að sjá í útsendingunni en að þeir hafi nokkuð til síns máls. Diouck fékk sendingu inn fyrir vörnina, upp miðjuna, Bjarki Þór komst fram fyrir hann, Diouck fer í bakið á Bjarka, potar boltanum áfram og er svo kominn einn vinstra megin við markið og nær að setja hann framhjá Aroni Birki í markinu. Mótmæli Þórsara breyttu engu um skoðun dómara leiksins, þrátt fyrir að það tæki dágóðan tíma frá því að markið var skorað þara til byrjað var á miðju aftur, nánar tiltekið 80 sekúndur.

2-1 – Misnotað víti
Á 61. mínútu fengu Þórsarar víti og heimamenn jafn ósáttir við það og okkar menn við annað mark Njarðvíkinga. Reyndar má segja að Þórsarar hafi fengið víti dæmt á 59. mínútu, en vítaspyrnan var ekki tekin fyrr en tæpum tveimur mínútum síðar vegna mótmæla. Nákvæmur tími er 104 sekúndur frá því að vítið var dæmt þar til boltanum var spyrnt, dæmt á 58:55, tekið á 60:39.

Heimamenn höfðu nokkuð til síns máls því í upptöku af leiknum virðist Alexander Már klárlega vera rangstæður í uppspilinu. Hann er svo kominn inn í teig og virðist togaður niður, nær þó að senda boltann á Valdimar Daða sem á skot framhjá. Af bendingum dómara má ráða að hann hafi gefið okkar mönnum hagnað eftir að Alexander var togaður niður, en um leið og skotið fer framhjá bendir hann á vítapunktinn. 

Alexander Már tók vítið sjálfur, en markvörður Njarðvíkinga varði. Skotið var á mitt markið og þar stóð markvörðurinn og varði út í teiginn. Bjargað í horn. 

2-2 – Elmar Þór Jónsson (62‘)
Eftir vítaspyrnuna fengu Þórsarar horn, heimamenn björguðu aftur í horn og Elmar Þór Jónsson skoraði beint úr seinni hornspyrnunni, á nærstöng. Reyndar verður að segjast eins og er að hann fékk nokkra aðstoð frá markverði Njarðvíkinga.

Þórsarar sigu afatur niður í 5. sætið, en Grindavík og ÍA unnu bæði á útivelli og fóru upp í 14 stig. Þórsarar fast á hæla þeirra með 13 stig. 

Okkar menn eiga aftur útileik í næstu umferð og hefur þeim leik reyndar verið flýtt frá upphaflegri dagskrá. Fimmtudagainn 29. júní kl. 18 mætast Þór og ÍA á Akranesi. Að þeim leik loknum kemur svo hlé í leikjadagskrána þar sem leikir hafa verið færðir til út af þátttöku U19 landsliðs Íslands í lokamóti EM.

Hér er upptaka af leiknum á YouTube-rás Lengjudieldarinnar.