Engin uppgjöf hjá Þór/KA

Innilegur fögnuður eftir jöfnunarmarkið. Agnes Birta Stefánsdóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, I…
Innilegur fögnuður eftir jöfnunarmarkið. Agnes Birta Stefánsdóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, Iðunn Rán Gunnarsdóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.
. . .

 

Þrátt fyrir að lenda þremur mörkum undir í fyrri hálfleik í leik gegn Stjörnunni í 1ö. umferð Bestu deildarinnar gáfust okkar stelpur ekki upp heldur náðu að jafna leikinn í seinni hálfleik.

Leikmenn Stjörnunnar mættu mun kröftugri til leiks en okkar stelpur. Eftir aðeins 12 mínútur voru komin tvö mörk frá gestunum, bæði eftir hornspyrnur. Þriðja markið kom svo á 37. mínútu. Snædís María Jörundsdóttir, Heiða Ragney Viðarsdóttir og Jasmín Erla Ingadóttir skoruðu allar fyrir Stjörnuna í fyrri hálfleiknum. Mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri, en Melissa Lowder varði nokkrum sinnum mjög vel. Varla hægt að segja að Þór/KA hafi skapað sér færi í fyrri hálfleiknum, helst að skalli frá Tahnai Annis eftir hornspyrnu hefði getað endað með marki, en boltinn fór framhjá.

Seinni hálfleikurinn var mun betri hjá okkar stelpum og strax á upphafsmínútunum hafði Hulda Ósk Jónsdóttir fengið víti þegar hún fór framhjá varnarmönnum Stjörnunnar sem brutu á henni til að stöðva hana. Hulda Björg Hannesdóttir skoraði úr vítinu. Þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum skoraði Karen María Sigurgeirsdóttir annað markið eftir stoðsendingu frá Karlottu Björk Andradóttur. Stelpurnar héldu áfram að berjast fyrir jöfnunarmarkinu og það kom loks á lokamínútu venjulegs leiktíma eftir hornspyrnu, hreinsun og fyrirgjöf. Iðunn Rán Gunnarsdóttir átti þá gott skot að marki eftir að Dominique Randle skallaði út í teiginn. Boltinn fór í stöngina, þaðan í bakið á markverði Stjörnunnar og í markið, skráð sem sjálfsmark. Fyrsta mark Iðunnar í efstu deild, ef það hefði verið skráð á hana.

  • 0-1 - Snædís María Jörundsdóttir (3‘). Stoðsending: Sædís Rún Heiðarsdóttir.
  • 0-2 - Heiða Ragney Viðarsdóttir (12‘). Stoðsending: Sædís Rún Heiðarsdóttir.
  • 0-3 - Jasmín Erla Ingadóttir (37‘). Stoðsending: Snædís María Jörundsdóttir.
  • 1-3 - Hulda Björg Hannesdóttir (49‘). Fengið víti: Hulda Ósk Jónsdóttir.
  • 2-3 - Karen María Sigurgeirsdóttir (74‘). Stoðsending: Karlotta Björk Andradóttir.
  • 3-3 - Iðunn Rán Gunnarsdóttir (90‘). Stoðsending: Dominique Randle. Markið er skráð sem sjálfsmark markvarðar.

Bæði lið reyndu ákaft að skora fjórða markið og hirða öll stigin, en það gekk ekki eftir. Ævintýralegt jafntefli varð niðurstaðan og Þór/KA tyllti sér í 3. sætið í bili. Þegar umferðinni lýkur gæi annaðhvort FH eða Þróttur hafa tekið 3. sætið.