Enginn leikjaskóli í sumar

Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs, hefur tilkynnt Ellerti Erni Erlingssyni, forstöðumanni íþróttamála við íþróttadeild Akureyrarbæjar, að Þór muni ekki reka leikjaskóla í sumar. Ástæðurnar eru fyrst og fremst faglegar að sögn Reimars.

Í bréfi Reimars segir hann meðal annars að sem íþróttafélag vinni Þór út frá gildum og stefnu gagnvart iðkendum innan félagsins og að það sé tilfinning forsvarsmanna félagsins að skólinn, eins og hann hefur verið í reynd, samræmist ekki þeim gildum sem félagið vill starfa eftir gagnvart iðkendum, sérstaklega þeim yngstu. 

Á hverju sumri hefur félagið boðið upp á 5-6 tveggja vikna námskeið með allt að 50 krökkum á hverju námskeiði. Reimar segir starfsmannahald hafa verið erfitt og ekki í samræmi við kröfur og þarfir. Yfirleitt hafi tveir einstaklingar á aldrinum 20-25 ára haft umsjón með skólanum, en þeim til aðstoðar hafi verið krakkar úr vinnuskóla bæjarins. Út frá faglegum sjónarmiðum megi fullyrða að þessi mönnun sé ekki viðunandi. Í því sambandi bendir hann einnig á að í hópi þeirra barna sem sækja skólann hafi farið fjölgandi þeim einstaklingum sem þurfi á sérstökum stuðningi að halda í skólakerfinu og fái þann stuðning í grunnskólunum, en sá stuðningur sé síðan ekki til staðar þegar komið er í leikjaskólann. Það hafi svo leitt til þess að utanumhald hafi orðið erfiðara, atvikum þar sem hegðunarvandamál komi við sögu hafi fjölgað og það hafi bitnað bæði á öðrum krökkum og starfsfólki skólans. 

Reimar kveðst tvívegis hafa hafið viðræður við velferðarsvið Akureyrarbæjar um að fá inn í leikjaskólann fagfólk á vegum bæjarins til að liðsinna þeim krökkum sem vitað er um að eru með greiningar og fá þá aðstoð í skólakerfinu sem þau þurfi á að halda. Vel hafi verið tekið í slíkt, en þegar á reyni hafi það ekki gengið eftir. 

Forsvarsmenn félagsins fóru á stúfana í vetur og leituðu eftir áhugasömu fólki til að sjá um leikjaskólann úr hópi nemenda í kennaranámi við Háskólann á Akureyri, en það skilaði engum árangri. Fyrir nokkru auglýsti félagið eftir skólastjóra en engin umsókn hefur borist. Mjög fáir vinnuskólakrakkar hafa sótt um að komast í vinnu á Þórssvæðinu í sumar og aðeins tveir einstaklingar hafa sýnt áhuga á að vinna við leikjaskólann. 

Reimar tekur fram í áðurnefndu bréfi að ef leikjaskólahugmyndin verði hugsuð upp á nýtt og bærinn geri meiri kröfur um fagþekkingu og reynslu geti félagið hugsað sér að koma inn í þann pakka og sé til í viðræður um þannig útfærslu. Hagnaður hefur verið af leikjaskóla Þórs á undanförnum áurm, en Reimar leggur áherslu á að það sé ekki aðalatriði, heldur það að þörf sé á fagþekkingu til að geta boðið krökkum sem koma til félagsins upp á öryggi, gleði og þroskandi umhverfi.