Félagaskipti og lánssamningar

Ion Perelló er gengin til liðs við Fram. Mynd: Þórir Tryggva
Ion Perelló er gengin til liðs við Fram. Mynd: Þórir Tryggva

Ion Perello er genginn til liðs við Fram. Þór og Þór/KA hafa lánað leikmenn til Húsavíkur.

Ion Perello hefur gengið til liðs við Fram og mun leika með liðinu í Bestu deildinni. Ion hefur ekki verið í leikmannahópi Þórs í undanförnum leikjum eins og sagt hefur verið frá hér og víðar, eftir að upp kom ágreiningur um túlkun á samningi hans að því er fram kom í viðtölum í fjölmiðlum við Þorlák Má Árnason þjálfara. Ion kom til Þórs í lok júní í fyrra, spilaði þá 13 leiki og skoraði tvö mörk. Á þessu ári hefur hann spilað 17 leiki í Lengjubikar, Lengjudeild og Mjólkurbikar og skorað eitt mark. 

Það eru fleiri hreyfingar á leikmannamálum hjá Þór og Þór/KA, en eins og sagt var frá hér í gær er Margrét Árnadóttir gengin aftur í raðir Þórs/KA eftir að hafa verið á mála hjá Parma á Ítalíu frá áramótum fram á sumar. Þá hefur Þór lánað Rafnar Mána Gunnarsson, sem kom til Þórs fyrir þetta tímabil, aftur í heimahagana, til Völsungs á Húsavík.

Hin kornunga og efnilega knattspyrnukona, Karlotta Björk Andradóttir, er komin í raðir Álftaness, sem leikur í 2. deildinni og hefur nú þegar spilað með liðinu. Þór/KA hefur lánað tvo leikmenn tímabundið til Völsungs, þær Emelíu Ósk Krüger og Kristu Dís Kristinsdóttur. Aftur á móti eru Arna Rut Orradóttir og Júlía Margrét Sveinsdóttir nú komnar aftur í Þór/KA eftir að hafa spilað með Völsungi það sem af er sumars. Auk þeirra skiptu Anna Guðný Sveinsdóttir, Helga Dís Hafsteinsdóttir, Ísabella Júlía Óskarsdóttir, Marey Dóróthea Maronsdóttir Olsen og Ólína Helga Sigþórsdóttir úr Þór/KA í Völsung, en þær eru allar einnig löglegar með 2. flokki sem er sameiginlegur undir merkjum Þórs/KA/Völsungs.