Fimm marka tap og Þórsarar hafa lokið keppni

Þórsarar eru úr leik í umspili Grill 66 deildar karla eftir tap gegn Fjölni í kvöld.

Eftir jafnar upphafsmínútur sigur gestirnir fram úr þrátt fyrir að fá samtals átta mínútur í brottvísanir í fyrri hálfleiknum á móti aðeins tveimur mínútum Þórsara. Þegar stutt var eftir af fyrri hálfleiknum var munurinn fjögur mörk og Þórsarar höfðu þá aðeins skorað sex mörk. Allur seinni hálfleikurinn eftir og auðvitað enn von þegar munurinn er aðeins fjögur mörk, en hún varð snögglega veikari þegar Fjölnir skoraði þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiksins. Staðan 7-13 í leikhléi.

Markvörður Fjölnis gerði mönnum lífið leitt, varði níu skot sem er 52% markvarsla í fyrri hálfleik, en þar ofan á komu líka tapaðir boltar, skot sem vörn gestanna varði og svo framvegis. Hann hafði síðan aðeins hægara um sig í þeim seinni. 

Munurinn var svo áfram 6-7 mörk fram eftir seinni hálfleiknum, eða þar til um korter var eftir. Þá varð til einhver neisti á milli stuðningsmanna og liðsins þegar Þórsarar minnkuðu muninn í fimm mörk. Stemningin hafði reyndar verið ágæt í stúkunni allan leikinn, en þarna var sett í annan gír og virtist eins og varnarleikur Þórs og stemningin á pöllunum kæmu gestunum úr jafnvægi. Þórsarar minnkuðu muninn í fjögur mörk 16-20 og 17-21 þegar um sjö mínútur voru eftir, en þá komu fjögur mörk í röð frá Fjölni sem slökktu þann vonarneista sem þó hafði kviknað í nokkrar mínútur. Lokaniðurstaðan svo fimm marka sigur gestanna, 21-26.

Fjölnir klárar því eingvígið 2-0 og fer í úrlistaeinvígi gegn Víkingi sem sló Kórdrengi út, einnig 2-0. Þórsarar hafa þar með lokið keppni á þessu tímabili.

Leikskýrslan á vef HSÍ.
Ítarlegri tölfræði á hbstatz.is.

Tölurnar

Þór
Mörk: Aron Hólm Kristjánsson 8, Andri Snær Jóhannsson 4, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Jonn Rói Tórfinsson 2, Jón Ólafur Þorsteinsson 2, Arnþór Gylfi Finnsson 1, Halldór Kristinn Harðarson 1, Sævar Þór Stefánsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 9, Arnar Þór Fylkisson 6.
Refsingar: 10 mínútur

Fjölnir
Mörk: Benedikt Marinó Herdísarson 5, Björgvin Páll Rúnarsson 4, Elvar Þór Ólafsson 4, Alex Máni Oddnýjarson 3, Viktor Berg Grétarsson 3, Goði Ingvar Sveinsson 2, Óðinn Freyr Heiðmarsson 2, Andri Hansen 1, Aron Breki Oddnýjarson 1, Jón Ásgeir Eyjólfsson 1.
Varin skot: Andri Hansen 12.
Refsingar: 12 mínútur