Fjögurra marka sigur í fyrsta leik

Þór 4-0 KA2

1-0 Nökkvi Hjörvarsson
2-0 Alexander Már Þorláksson
3-0 Ingimar Arnar Kristjánsson
4-0 Ingimar Arnar Kristjánsson

Um var að ræða fyrsta leik okkar manna síðan keppni í Lengjudeildinni lauk síðasta haust og strax á tveimur fyrstu mínútum leiksins fengu Þórsarar tvö dauðafæri en náðu ekki að nýta.

Eftir opnar fyrstu mínútur leiksins hægðist talsvert á sóknarleik okkar manna og þrátt fyrir að vera mun meira með boltann vantaði upp á að klára sóknir vel stóran hluta leiksins. Undir lokin opnuðust hins vegar flóðgáttir eftir að hinn sextán ára gamli Nökkvi Hjörvarsson kom Þór á bragðið með góðu skoti utan vítateigs. Hans fyrsta mark fyrir meistaraflokk Þórs.

Alexander Már Þorláksson tvöfaldaði forystu Þórs skömmu síðar eftir laglega sókn og Ingimar Arnar Kristjánsson skoraði svo síðustu tvö mörk leiksins og innsiglaði 4-0 sigur Þórs. Þetta voru einnig fyrstu mörk Ingimars, sem er sautján ára gamall, fyrir meistaraflokk Þórs.

Smelltu hér til að skoða leikskýrsluna úr leiknum.

Fimm leikmenn léku í fyrsta sinn fyrir meistaraflokk Þórs í kvöld; þeir Valdimar Daði Sævarsson sem kom frá KV á dögunum, Rafnar Máni Gunnarsson sem kom frá Völsungi, Snorri Þór Stefánsson, markvörður sem er á miðári í 2.flokki og svo jafnaldrarnir Davíð Örn Aðalsteinsson og Atli Þór Sindrason sem eru á yngsta ári í 2.flokki.

Næsti leikur okkar manna er nk. sunnudag þegar Þór tekur á móti KF í Boganum en leikurinn er í Kjarnafæðimótinu.