Fjögurra marka tap á Skaganum

Þórsarar máttu þola enn eitt útivallartapið í gær þegar þeir mættu ÍA á Skaganum. Niðurstaðan fjögurra marka tap. 

  • 1-0 - Hákon Andri Haraldsson (45+2')
  • 2-0 - Gísli Laxdal Unnarsson (60')
  • 3-0 - Viktor Jónsson (72')
  • 4-0 - Daníel Ingi Jóhannsson (90+3')

Heimamenn í ÍA voru mun betri í fyrri hálfleiknum og mega Þórsarar kallast góðir að hafa sloppið með aðeins eitt mark á bakinu inn í klefa í leikhléi. Það mark kom reyndar á óheppilegum tíma, ef svo má orða það, í viðbótartíma fyrri hálfleiks eftir að menn höfðu sloppið með skrekkinn fram að því. Aron Birkir átti stærstan þátt í því að halda okkar mönnum inni í leiknum með góðri frammistöðu í fyrri hálfleiknum.

Þórsarar mættu öflugir út í seinni hálfleikinn og litu vel út fyrsta korterið, en sá neisti slokknaði því það voru Skagamenn sem þá skoruðu mark og svo mörk.

Eftir leikinn eru Þórsarar í 6. sæti deildarinnar með 13 stig, jafn mörg og Grótta sem raðast sæti ofar. Þróttarar gætu farið upp fyrir Þór í kvöld, en þeir eiga leik gegn Grindvíkingum.

Næsti leikur liðsins er á dagskrá miðvikudaginn 12. júlí í Grindavík.