Flautukarfa frá fyrirliðanum tryggði Þór sigur

Heiða Hlín skoraði sigurkörfuna á síðustu andartökum leiksins
Heiða Hlín skoraði sigurkörfuna á síðustu andartökum leiksins

Þór-Hamar/Þór 78:76

Heiða Hlín var stigahæst í Þórssigri gegn Hamri/Þór með 24 stig en Astaja Tyghter var með 33 stig fyrir gestina.

Íþróttahöllin 8. mars 2022. 1. deild kvenna Þór-Hamar/Þór 78:76

Gangur leiks eftir leikhlutum: 17:19 / 16:24 (33:43) 18:18 / 27:15 = 78:76

Það sem mestu máli skiptir í körfuboltaleikjum er að vera yfir þegar flautað er til leiksloka óháð því hvað gerst hafi fram að lokaflautinu. Það er ekki nóg að leiða lungan úr leiknum að því er ekki spurt heldur hvernig endaði leikurinn.

Þetta sýndi sig vel í kvöld þegar Þór tók á móti sameinuðu liði Hamars/Þórs í 1. deild kvenna í leik sem fram fór í íþróttahöllinni. Þetta er nokkuð sem Þórsstúlkur létu reyna á í kvöld þegar liðið sótti tveggja stiga sigur gegn Hamri/Þór með flautukörfu.

Fram að sigurkörfunni hafði Þór aðeins leitt í þrígang þegar sigurkarfan leit dagsins ljós. Þór leiddi 10:8 á 5:52 mínútu svo ekki aftur fyrr en í stöðunni 75:74 og 30 sekúndur til leiksloka. Þegar um 2,6 sekúndur lifðu leiks jafnaði Astaja leikinn á vítalínunni 76:76 og Daníel tók leikhlé.
Þórsarar taka boltann inn á Rut Herner sem á augabragði fann Heiðu Hlín sem fór í lay-up og skoraði um það leiti sem flautan gall.

Þórsstúlkur voru lengi að finna að réttu leiðina að körfunni en fyrsta karfa Þórs kom eftir 3:35 og staðan 2:6 og svo eins og áður segir 10:8. Eftir þetta náðu gestirnir yfirhöndinni á leiknum og leiddu iðulega með 8-13 stiga mun en munurinn í hálfleik var tíu stig 33:43. Varnarleikur Þórs var ekki nægilega góður og stelpurnar virtust þungar og seinar í boltann.

Í fyrri hálfleik var Heiða Hlín komin með 13 stig, Hrefna 6 og þær Karen Lind og Marín Lind með 5 stig hvor.

Í liði gestanna var hin bandaríska Astaja algerlega óstöðvandi og komin með 20 stig og Julia 13.

Þriðji leikhluti var nokkuð jafn, liðin þéttu varnirnar og skoraði hvort lið um sig 18 stig og gestirnir leiddu sem fyrr með tíu stigum 51:61 þegar lokakaflinn hófst.

Í fjórða leikhluta var eins og Þórsliðið hafi fengið auka vítamínssprautu. Liðið lokaði meir í vörn og tók að sækja sem aldrei fyrr og tók að saxa á forskotið jafnt og þétt. Þegar 2:30 voru til loka leiks var munurinn komin niður í eitt stig 70:71. Þetta var orðin alvöru leikur.

Þórsliðið komst svo yfir eins og áður segir 75:74 og æsispennandi lokasekúndur sem enduðu með flautukörfunni sem lýst var hér að ofan.

Þórsarar fögnuðu sætum tveggja stiga sigri 78:76 og sá sigur kom fyrst og síðast með geggjaðri endurkomu í fjórða leikhluta þar sem allt var lagt í sölurnar barátta sem skilaði sigrinum.
Allir leikmenn Þórs stóðu fyrir sínu í dag en fremst meðal jafningja var fyrirliðinn Heiða Hlín.

Framlag leikmanna Þórs: Heiða Hlín 24/6/1, Hrefna Ottósdóttir 19/4/2 og þar af 6 þrista, Karen Lind 11/5/0, Marín Lind 11/5/5, Rut Herner 8/9/8, Katla María 3/2/0, Ásgerður Jana 2/2/0. Að auki spilaði Eva Wium en henni tókst ekki að skora.

Í liði gestanna voru þær Astaja Tyghter og Julia Demirer bestar en samtals skoruðu þær 55 stig.

Framlag gestanna: Astaja Tyghter 33/11/7, Jullia Demirer 22/9/1, Hildur Björk 8/4/2, Helga María 8/2/5, Ingibjörg Bára 3/0/2 og Gígja Rut 2/0/2.

 

Tölfræði leiksins