Fleiri undirskriftir hjá Þór/KA

Harpa Jóhannsdóttir, Hulda Björg Hannesdóttir, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir og Jakobína Hjörvarsdóttir hafa allar framlengt samninga sína við Þór/KA.

Reikna má með að þessar fjórar verði á meðal lykilleikmanna félagsins á komandi tímabili og í framtíðinni. Harpa og Hulda Björg eru á meðal reyndustu leikmanna í ungum leikmannahópi félagsins. Hulda Björg var fyrirliði undanfarið ár og Harpa önnur af varafyrirliðum liðsins. Allir samningarnir gilda út árið 2024.

Harpa Jóhannsdóttir (1998) hefur verið aðalmarkvörður Þórs/KA undanfarin þrjú tímabil, en hafði áður ýmist verið í hlutverki varamarkmanns hjá Þór/KA eða spilað sem lánsmaður með Hömrunum í 1. deild. Hún á að baki 100 leiki í meistaraflokki, þó ekki alla í efstu deild eða með Þór/KA því hún hefur leikið 77 leiki með Þór/KA og 23 með Hömrunum. Hún kom fyrst við sögu í meistaraflokki 2014. Auk framangreindra leikja á hún að baki 22 leiki í öðrum mótum. Harpa á einnig að baki átta leiki með yngri landsliðum Íslands.

Hulda Björg Hannesdóttir (2000) hefur spilað í stöðu miðvarðar undanfarin ár, eftir að hafa spilað meira sem vængbakvörður í upphafi meistaraflokksferilsins. Hulda Björg spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki sumarið 2016, þá undir stjórn Jóhanns Kristins Gunnarssonar núverandi þjálfara. Hún vann sér síðan fast sæti í liðinu árið eftir, þegar Þór/KA vann Íslandsmeistaratitilinn öðru sinni, og hefur spilað nánast alla leiki Þórs/KA síðan þá. Hún á að baki 147 leiki í meistaraflokki og hefur skorað í þeim átta mörk. Á nýliðnu tímabili náði hún 100 leikja áfanga í efstu deild. Hulda Björg á jafnframt að baki 28 leiki með yngri landsliðum Íslands og 19 meistaraflokksleiki í öðrum m

Ísfold Marý Sigtryggsdóttir (2004) spilar sem miðjumaður og á að baki 52 leiki og þrjú mörk með meistaraflokki, auk 16 leikja í öðrum mótum. Þá hefur hún einnig spilað með yngri landsliðum Íslands og á þar að baki sex leiki. Hún kom fyrst við sögu í meistaraflokki 2018, þá enn gjaldgeng í 3. Flokki. Flesta leikina hefur hún spilað með Þór/KA, en var lánsmaður með Hömrunum í 2. Deild hluta sumars 2020 og spilaði þá sjö leiki með Hömrunum.

Jakobína Hjörvarsdóttir (2004) spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki 2019, þá enn gjaldgeng í 3. flokki. Hún á nú þegar að baki 43 leiki í meistaraflokki, og tvö mörk, þrátt fyrir að hafa misst úr næstum heilt ár frá ágúst 2021 til ágúst 2022 vegna meiðsla. Auk þessa eru skráðir átta leikir og þrjú mörk í öðrum mótum. Jakobína spilar sem vinstri bakvörður, en hefur einnig spilað aðrar stöður með yngri landsliðum Íslands, þar sem hún á að baki 16 landsleiki.

Það var Íris Egilsdóttir sem situr í stjórn Þórs/KA sem undirritaði samningana við áðurnefnda leikmenn. Þór/KA fagnar því að þessar öflugu heimastelpur hafa nú framlengt samninga sína við félagið.