Frábær sigur á Íslandsmeisturunum

Margrét Árnadóttir fagnar af mikilli innlifun eftir að hún kom Þór/KA í 2-1 á 75. mínútu. Mynd: Páll…
Margrét Árnadóttir fagnar af mikilli innlifun eftir að hún kom Þór/KA í 2-1 á 75. mínútu. Mynd: Páll Jóhannesson.

Góð stemning var í Boganum og fyrir það ber að þakka. Þáttur öflugra stuðningsmanna í að ná upp baráttu og krafti inni á vellinum verður seint ofmetinn.

Íslandsmeistararnir – sem einnig hefur verið spáð að vinni titilinn aftur á þessu ári – voru í heimsókn og mögulega bjuggust ekki mörg við því að Þór/KA myndi bíta frá sér, einnig eftir að hafa beðið 4-1 ósigur gegn Breiðabliki í fyrstu umferðinni. En hugarfar og barátta í bland við hæfileikaríkar fótboltastelpur getur skilað liðinu langt.

Sandra María jafnaði við Rakel Hönnu

Það voru ekki liðnar nema rúmar fimm mínútur af leiknum þegar Sandra María Jessen kom Þór/KA í 1-0. Tiffany McCarty stal þá boltanum af leikmanni Vals á miðjum þeirra vallarhelmingi, lék áfram og renndi boltanum til vinstri inn á teiginn til Söndru Maríu sem kláraði færið sitt af öryggi.

Þetta var 74. mark Söndru Maríu í efstu deild og hefur hún þar með jafnvað við Rakel Hönnudóttur yfir flest mörk skoruð fyrir Þór/KA í efstu deild. Þetta mark Söndru Maríu var hennar fyrsta á Íslandsmótinu frá því í september 2018 - eins og kemur fram í frétt á akureyri.net - en þá skoraði hún í 4-1 sigri Þórs/KA á Þórsvellinum.

Fleiri færi, fleiri skot - en færri mörk

Valur var meira með boltann, skapaði sér fleiri færi, átti fleiri skot og fleiri hornspyrnur en Þór/KA, en það hefur lítið að segja ef færin eru ekki nýtt. Þetta var þannig dagur hjá Val, bæði í fyrri og seinni hálfleik. Elín Metta Jensen náði að jafna leikinn á 64. mínútu, en hafði ekki löngu áður brennt af í dauðafæri. Mögulega bjuggust einhverjir áhorfendur við að þar með væri draumurinn úti og Valur myndi ganga á lagið og hirða öll stigin. En eftir markið var það sama uppi á teningnum, gestirnir sköpuðu sér færi, en náðu ekki að klára þau.

Baráttan og samheldnin skilaði sínu

Það verður hins vegar ekki tekið af Þór/KA stelpum að baráttan og samheldnin í liðinu var til fyrirmyndar og það skilaði árangri. Góð vörn með Hörpu Jóhannsdóttur frábæra fyrir aftan sig í markinu náði að koma í veg fyrir fleiri mörk frá gestunum.

Í ofanálag kom svo refsingin eins og blaut tuska í andlit gestanna þegar Tiffany átti sendingu inn fyrir vörn Vals. Sandra María virtist vera rangstæð og reyndi ekki við boltann, en Margrét Árnadóttir kom á ferðinni inn fyrir vörnina, átti skot sem Sandra í markinu verði, en Margrét gafst ekki upp, var fyrst í boltann aftur og skoraði. Virkilega vel gert, bæði hjá Tiffany og Margréti.

Fyrsti leikur í efstu deild

Angela Mary Helgadóttir (2006) kom inn á sem varamaður fyrir Sögu Líf þegar um 12 mínútur voru eftir og var þetta hennar fyrsta innkoma í leik í efstu deild. Unnur Stefánsdóttir kom einnig inn á sem varamaður í leiknum, en hún spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild í liðinni viku gegn Breiðabliki.

Meira í frétt á thorka.is.

Þessar myndir tók Páll Jóhannesson á leiknum í gær.


Ástríða. Margrét Árnadóttir fagnar marki sínu ásamt liðsfélögunumn. Mynd: Páll Jóhannesson.


Angela Mary Helgadóttir spilaði sínar fyrstu mínútur í efstu deild í gær. Hér fær hún fyrirmæli frá Jóni Stefáni áður en hún stingur sér í djúpu laugina. Mynd: Páll Jóhannesson. 


Þjálfararnir Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson fagna innilega þegar flautað var til leiksloka. Mynd: Páll Jóhannesson.

.