Frábæru tímabili hjá körfuboltastelpunum lokið

Rauði hluti stúkunnar var stórkostlegur í leiknum í gær. Hér þakka stelpurnar fyrir stuðninginn í gæ…
Rauði hluti stúkunnar var stórkostlegur í leiknum í gær. Hér þakka stelpurnar fyrir stuðninginn í gær og í vetur að leik loknum. Myndir: HarIngo

Kvennalið Þórs í körfubolta, þjálfarinn og fólkið sem starfar í kringum liðið getur staðið stolt eftir árangurinn í vetur þó ekki hafi komið bikar heim úr Garðabænum í gær. Þór og Stjarnan mættust í oddaleik í einvíginu um sigur í 1. deildinni og hafði Stjarnan betur. Þór leikur í efstu deild á komandi tímabili í fyrsta skipti í 45 ár.

Þór og Stjarnan sýndu það í vetur að þetta voru tvö bestu lið 1. deildarinnar og hefði verið fróðlegt að fylgjast með einvíginu ef aðeins eitt sæti í efstu deild hefði verið undir, eins og staðan var fram að ársþingi KKÍ þann 25. mars. Eins og áður hefur komið fram hér var á þinginu samþykkt að gera breytingu og fjölga liðum í efstu deild þannig að ekkert lið fellur og tvö fara upp úr 1. deildinni þetta árið. Bæði liðin voru því með Subway-sætið tryggt áður en einvígi liðanna um sigur í deildinni hófst.

Einvígið hefur svo verið bráðskemmtilegt og stemningin á leikjunum vakið athygli, sérstaklega á heimaleikjum Þórs og svo í oddaleiknum í gær. Óhætt er að fullyrða að stuðningurinn í Höllinni á Akureyri eigi sinn þátt í því að Þór vann báða heimaleikina í einvíginu. Annar útileikurinn fór í framlengingu, en því miður náði Stjarnan að vinna alla þrjá heimaleikina og þar með einvígið. Enn og aftur má grípa til klisjunnar um góða auglýsingu fyrir körfuboltann og alveg klárt að liðin í Subway-deildinni, fjölmiðlar sem fjalla um Subway-deildina og áhugafólk um körfubolta kvenna mun taka eftir Akureyringum á næsta tímabili. 

Frábær stemning í stúkunni

Oddaleikurinn fór fram í Garðabænum í gærkvöld og var stemningin hreint stórkostleg, um 500 manns (482 skráðir skv. leikskýrslu) mættu á leikinn, þar af hátt í 100 stuðningsmenn Þórs sem stuttu vel og dyggilega við liðið allan leikinn. Stuðningurinn og stemningin sem fylgt hefur þessu liði undanfarna tvo vetur eftir að liðið var endurvakið hefur verið frábær og ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að Þórsarar fjölmenni á leiki í Subway-deildinni á næsta tímabili og taki vel á því með stelpunum.

Þórsliðið hefur átt betri leiki en það sýndi í gær, en engu að síður var leikurinn nokkuð jafn, ef frá er talinn kafli í byrjun annars leikhluta þar sem Stjarnan skoraði 11 stig í röð og náði forystu sem Þórsliðið var svo að berjast við að minnka það sem eftir var leiksins. Í fjórða leikhluta kviknaði von og munurinn var kominn niður í eitt stig, 56-55, þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir og stelpurnar fengu tækifæri til að ná forystunni, en þá svöruðu Stjörnustelpur og munurinn varð á endanum tíu stig, 67-57.

Gangur leiksins eftir leikhlutum: 18-14 • 18-11 • (36-25) • 18-19 • 13-13 • 67-57

Ítarleg tölfræði á vef KKÍ.


Haraldur Örn Hannesson á BK-kjúklingi hefur séð vel um stelpurnar fyrir útileikina á höfuðborgarsvæðinu og fékk að launum blómvönd frá frænku sinni, karen Lind Helgadóttur. 


Lið Stjörnunnar að leik loknum í gær. Þær urðu deildarmeistarar og sigruðu í einvíginu, en bæði liðin spila í efstu deild á næsta tímabili.