Fréttir frá Píludeild Þórs

Skemmtimót Píludeildar Þórs 5. mars.
Skemmtimót Píludeildar Þórs 5. mars.

Mikill uppgangur hefur verið í starfsemi Píludeildar Þórs á þessu ári. Skráðir meðlimir í Píludeild Þórs telja um 55 manns í dag.

Mikið hefur verið um mót á vegum deildarinnar og ber þar helst að nefna meistaramót Píludeildar Þórs í 501 einmenning sem fór fram um liðna helgi. 16 keppendur voru skráðir til leiks en nokkuð var um forföll af skráðum meðlimum. Mótið fór vel fram og var mikil ánægja meðal keppenda. Í undanúrslitum mættust Viðar Valdimarsson og Sverrir Freyr Jónsson og var það Viðar Valdimarsson sem sigraði 6-2. Í hinum undanúrslitaleiknum voru það Sigurður Fannar Stefánsson og Markús Darri Jónasson sem mættust og var það Sigurður Fannar sem sigraði 6-1. Í úrslitum mættust því Viðar Valdimarsson og Sigurður Fannar Stefánsson og var það Viðar Valdimarsson sem bar sigur úr býtum, 7-3, í skemmtilegum leik. Þetta var fyrsti sigur Viðars í meistaramóti Þórs í 501 einmenning. Óskum honum til hamingju með sigurinn.

Píludeild Þórs fór afstað með fyrirtækjamót um miðjan mars en keppt er 1x í viku, á fimmtudögum. 14 fyrirtæki skráðu sig til leiks og hefur mótið gengið vel fyrir sig. Spilað var í tveimur riðlum og er riðlakeppni lokið og fara efstu 4 liðin uppúr riðlunum og keppa í 8 liða úrslitum sem hefjast á fimmtudaginn næstkomandi, 12. maí. Úrslitakvöldið fer svo fram fimmtudaginn 19. maí en þá verða undanúrslitin og úrslitaleikurinn spilaður. Fyrirtækjamótið hefur heppnast virkilega vel og stefnt er á að halda annað fyrirtækjamót næsta vetur.

Þessu til viðbótar hefur Píludeild Þórs haldið tvö stór skemmtimót þar sem um 60 manns hafa mætt á bæði kvöldin og skemmt sér konunglega. Páskamót Píludeildar Þórs var haldið á föstudaginn langa og voru þar 31 keppandi skráður til leiks. Sigurvegari páskamótsins var Óskar Jónasson eftir sigur á móti Rúnari Frey í úrslitaleik mótsins.

Fyrir áhugasama sem vilja koma og kasta þá er almenn opnun í aðstöðu Píludeildar Þórs í Laugargötu á mánudögum og miðvikudögum frá 19:00 – 22:00. Að minnsta kosti einn úr stjórn Píludeildar Þórs er í aðstöðunni á þessum dögum og getur leiðbeint og aðstoðað þá sem koma. Hvetjum sem flesta til að mæta á þessum dögum og prófa að kasta í frábæru aðstöðunni okkar. Í salnum hjá okkur er 16 píluspjöld og þar af 6x Scoliur sem telja sjálfkrafa niður, það eina sem þarf að gera er að kasta pílunum í spjaldið og Scolian sér um talninguna. Í pöntun eru 10x Scoliur og áhugasamir um að kaupa geta haft samband við aðila í stjórn Píludeildar Þórs.

Allir eru velkomnir að kíkja í heimsókn og skoða aðstöðuna hjá Píludeild Þórs. Píluvörur eru til sölu hjá okkur, spjöld, verndara, ljós, pílur, fjaðrir og leggir. Allt sem þarf fyrir þá sem vilja byrja að stunda pílukast!

Til að hafa samband er hægt að fylgja okkur á Facebook undir Píludeild Þórs en þar er sett inn hvað er á döfinni eða senda tölvupóst á pila@thorsport.is