Fyrsta tapið á heimavelli í deildinni

Aron Ingi Magnússon skoraði eina mark Þórs í leiknum. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.
Aron Ingi Magnússon skoraði eina mark Þórs í leiknum. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.

Þór mátti sjá á eftir öllum þremur stigunum suður þegar topplið Aftureldingar mætti í Þorpið.

Fyrir leikinn í dag voru Þórsarar taplausir í deildinni á heimavelli, höfðu unnið fjóra leiki, en Afturelding hafði ekki tapað leik í deildinni og með góða forystu á toppnum, aðeins gert tvö jafntefli en unnið aðra leiki. Afturelding varð á undan til að skora, Þórsarar jöfnuðu nokkrum mínútum síðar, en gestirnir bættu við öðru marki fyrir hlé og staðan 1-2 í leikhléinu. Afturelding bætti svo við þriðja markinu þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

  • 0-1 - Elmar Kári Enesson Cogic (28')
  • 1-1 - Aron Ingi Magnússon (34'). Stoðsending: Alexander Már Þorláksson.
  • 1-2 - Oliver Bjerum Jensen (40'). 
  • 1-3 - Arnór Gauti Ragnarsson (79').

Eftir leikina í 12. umferðinni færðist Þór niður í 8. sætið með 14 stig eftir 11 leiki, en liðið á leik til góða á næstu tvö lið fyrir ofan, Leikni og Þrótt, sem einnig eru með 14 stig. Þar fyrir ofan koma Grindavík með 15 stig úr 11 leikjum og Grótta þar fyrir ofan í 4. sætinu með 16 stig úr 10 leikjum. 

Fram kom í viðtölum við Þorlák Má Árnason, þjálfara Þórs, að spænski miðjumaðurinn Ion Perello væri á förum frá félaginu vegna deilna um túlkun á samningi. Ion var ekki í leikmannahópnum í dag og ekki heldur í leiknum í Grindavík. Þá kom einnig fram í viðtölum að Valdimar Daði Sævarsson og markvörðurinn Ómar Castaldo Einarsson væru á förum vestur yfir haf til náms, en þeir komu báðir til Þórs fyrir yfirstandandi tímabil.

Næsti leikur Þórs verður gegn Vestra á Ísafirði laugardaginn 22. júlí kl. 14.