Glæsilegur sigur í Grindavík

Tvenna í dag
Tvenna í dag

Í kvöld heimsóttu Þórsarar Grindvíkinga í fjórtándu umferð Lengjudeildarinnar í fótbolta.

Óhætt er að segja að okkar menn hafi mætt ákveðnir til leiks og virtust staðráðnir í að fylgja á eftir frábærum útisigri á Kórdrengjum síðastliðið föstudagskvöld.

Eftir rúmar 20 mínútur var staðan orðin 0-2, okkar mönnum í vil og gerði Alexander Már Þorláksson bæði mörkin. Elmar Þór Jónsson sem kom inn í byrjunarliðið í stað Arons Inga Magnússonar, sem gekk í raðir Venezia á dögunum, átti báðar stoðsendingarnar.

Fyrra mark Alexanders var glæsilegt skallamark og annað markið gerði hann með hælnum. Frábær mörk.

Heimamenn náðu að minnka muninn á 81.mínútu þegar Dagur Ingi Hammer skoraði. Aron Birkir Stefánsson átti góðar vörslur í síðari hálfleik og lauk leiknum með verðskulduðum 1-2 sigri Þórs.

Eftir að hafa unnið fjóra leiki af síðustu sex eru Þórsarar nú komnir með sautján stig en eru þrátt fyrir það áfram í 10.sæti deildarinnar en nú með jafnmörg stig og Grindavík og Kórdrengir sem eru í næstu tveimur sætum fyrir ofan.

Næsti leikur Þórs er heimaleikur gegn Vestra laugardaginn 6.ágúst næstkomandi.