Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þór tók þátt í sterku fótboltamóti í Noregi á dögunum. Þar mættu okkar strákar jafnöldrum sínum úr öflugum akademíuliðum frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Hollandi.
Um var að ræða keppni fyrir leikmenn yngri en 18 ára (U18) og var lið Þórs því skipað völdum leikmönnum úr 2. og 3.flokki félagsins. Mótið var haldið af norska úrvalsdeildarliðinu Viking Stavanger sem hafði frumkvæði að því að bjóða Þór að taka þátt í mótinu.
Fyrsti leikur Þórs var gegn norska liðinu Brann og höfðu Norðmennirnir betur 2-0 en þeir eru ríkjandi meistarar í þessum aldursflokki í Noregi. Næsti leikur Þórs var gegn danska liðinu Viborg og lauk honum með markalausu jafntefli en Þór fékk aukastig fyrir að vinna vítaspyrnukeppni sem var háð þegar leikjum lauk með jafntefli. Síðasti leikur Þórs í riðlinum var gegn sænska liðinu Brommapojkarna og lauk honum með 1-2 sigri Brommapojkarna eftir að Peter Ingi Helgason Jones hafði komið Þór í forystu.
Þar með varð ljóst að Þórsliðið endaði í 3.sæti riðilsins og lék gegn sænska liðinu AIK í undanúrslitum neðri hlutans. Leikið var á aðalvelli Viking Stavanger sem er glæsilegur 15.000 manna leikvangur. Leiknum lauk með markalausu jafntefli en okkar menn töpuðu vítaspyrnukeppninni að þessu sinni og mættu því aftur Viborg í síðasta leik sínum í mótinu. Strákarnir enduðu mótið með stæl og unnu öruggan 3-1 sigur þar sem Rúnar Daði Vatnsdal Sveinsson skoraði tvö mörk og Peter Ingi eitt.
Önnur þátttökulið í mótinu voru Viking Stavanger, Groningen og Þróttur Reykjavík en Brommapojkarna vann mótið eftir sigur á Brann í úrslitaleik.

Úrslit Þórs
Þór 0-2 Brann
Þór 0-0 Viborg (6-5 sigur Þórs í vítaspyrnukeppni)
Þór 1-2 Brommapojkarna
Þór 0-0 AIK (2-3 tap Þórs í vítaspyrnukeppni)
Þór 3-1 Viborg
Þjálfarar Þórs voru ánægðir með ferðina og engin spurning að þátttaka í svona móti er frábært tækifæri fyrir okkar drengi til að bera sig saman við jafnaldra sína sem eru komnir inn í akademíumhverfi sem þekkist alls staðar í Evrópu en er ekki við lýði á Íslandi.
Strákarnir okkar áttu fullt erindi í alla andstæðinga sína á mótinu sem er góðs viti. Mótið mun einnig nýtast sem góður undirbúningur þessara drengja fyrir komandi tímabil en næsta haust mun Þór taka þátt í Evrópukeppni unglingaliða í kjölfar þess að hafa unnið Íslandsmótið í 2.flokki í ár.
Þeir Ásbjörn Líndal Arnarsson og Einar Freyr Halldórsson tóku ekki þátt með Þór á mótinu þar sem þeir voru í landsliðsverkefni með U19 landsliði Íslands í Rúmeníu á sama tíma.
