Goðamót um helgina


Knattspyrnudeild Þórs heldur um helgina 71. Goðamótið, en mótin hafa verið haldin árlega frá því að Boginn var opnaður snemma árs 2003, alla tíð undir merkjum Goða í samstarfi við Norðlenska.

Á mótinu núna um helgina eru það drengir í 5. flokki sem mætast, en þó ekki eingöngu því sjá má á leikjadagskránni að þar er til dæmis eitt lið frá Þór skipað stelpum. Að þessu sinni eru það 50 lið frá 12 félögum sem mætast í Boganum og eru þátttakendur samtals um 350. Keppt er í flokkum A, B, C, D, E og F.

Upplýsingar um Goðamótin má finna á vef mótanna, godamot.weebly.com – en til að fara beint inn á upplýsingasíðuna fyrir þetta mót má slá inn godamot.is.weebly.com/5fl-kk. Leikjadagskrár, riðla og deildir, úrslit leikja má svo finna í mótskerfinu hér: Goðamót 5.fl kk (torneopal.com). Í mótakerfinu er hægt að skoða leikjadagskrár og úrslit eftir félögum, liðum, riðlum og deildum.

Næsta Goðamót er svo síðar í nóvember þegar stúlkur í 6. flokki mæta til leiks dagana 25.-27. nóvember.