Handboltafréttir yngriflokka, helgin 3.-5. feb

Það var nóg um að vera um síðustu helgi hjá 7.flokki og 5.flokki Þórs í handbolta. 7.flokks mót var haldið í KA heimilinu og voru alls 19 lið sem tóku þátt. KA hefur áður skipulagt mót af þessu tagi fyrir 7.flokk og hafa þau alltaf slegið í gegn. Á þessum mótum gefst stúlkum og drengjum í Þór, KA/Þór og KA, tæki færi til að æfa sig í að spila leiki og fá leiðbeiningar frá þjálfurum jafnóðum. Við hjá Þór mættum með fjögur lið og var gríðarlega gaman að sjá framfarir iðkennda á milli móta. Hver leikur er 10 mínútur og nær hvert lið að spila fjóra leiki. Þetta var góð æfing fyrir fyrsta stóra mótið sem stefnt er að, á Selfossi í maí. Að loknu móti var boðið uppá pylsur og safa.

Fimmti flokkur fór til Reykjavíkur um síðustu helgi til að taka þátt í 5 flokk móti sem haldið var af Víking í Safamýrinni. Farið var með þrjú lið. Ferðin gekk mjög vel þrátt fyrir langt stopp í Borgarnesi þar sem vindkviður undir Hafnarfjalli slöguðu í 50.metra á sek.
Þórsarar náðu þó í Safamýrina í tíma og náðu liðsmenn Þórs 1 að vinna báða sína leiki. Kvöldmatur var síðan snæddur í IKEA. Strákarnir gistu á Hostelinu í Laugardal og það fór vel um þá þar. Á laugardeginum var aftur farið í Safamýrina, þar sem Þór 1 gerði jafntefli við Stjörnuna sem gerði það að verkum að næsti leikur var úrslitaleikur á móti Val um 1.sætið í deildinni. Sá leikur var hörku spennandi og mikið um átök. Við náðum yfirhöndinni og unnum leikinn 17-16 sem gerir það að verkum að Þór 1. færist upp um deild á næsta móti.
Þór 2. Keppti í Víkinni á laugardeginum og þar voru ansi spennandi leikir. Fyrsti leikurinn sem var á móti Stjörnunni 2, tapaðist með eins marks mun. Þeir komu því tvíelfdir inn í næsta leik sem var á móti FH 2. og unnu hann með 6 marka mun. Þór 2 gerði sér lítið fyrir og vann Víking 2 með þriggja marka mun. Síðasti leikur Þórs 2 var við Gróttu 2 og var mjög spennandi allt að síðustu mínútu. Sá leikur endaði með jafntefli.
Þór 3. keppti einnig sína leiki á laugardeginum í Safamýrinni. Þór 3. náði ekki að vera í sínu besta formi. Þar voru þó nokkrir leikmenn sem fengu sína fyrstu mótareynslu ásamt reyndari mönnum. Öll mót eru viðbót við reynslubankann og einkenndist helgin af gleði og vináttu.
Áður en lagt var af stað heim var komið við í Mosfellsbænum þar sem flestir fundu sér eitthvað gott að borða. Það var mikil stemming í rútunni framan af á heimleiðinni en flestir sofnaðir þegar leið á ferðina.
Flott og skemmtileg fer og við Þórsarar þökkum Víking fyrir gott mót.