Handbolti: Einvígi Þórs og Fjölnis hefst í dag

Þórsarar sækja Fjölnismenn heim í Grafarvoginn í dag þegar liðin mætast í fyrsta leik úrslitakeppni Grill 66 deildar karla í handbolta. Þórsarar senda stuðningsfólki syðra ákall um að mæta í Fjölnishöllina og styðja strákana.

Búast má við jöfnu og spennandi einvígi þessara liða. Þau mættust tvisvar í Grill 66 deildinni í vetur og unnust báðir leikirnir á heimavelli. Þórsarar höfðu betur í Höllinni í nóvember, unnu þá eins marks sigur, 27-26, en Fjölnir vann sinn heimaleik, einnig með eins marks mun, 26-25, í byrjun mars. 

Fjölnismenn enduðu í 3. sæti deildarinnar, en þó næstefstir þeirra liða sem kepptu um að komast upp í Olísdeildina því eins og margoft hefur komið fram var það ungmennalið Fram sem vann deildina. ÍR-ingar urðu efstir A-liðanna og fara beint upp í Olísdeildina. Fjölnismenn hafa verið í leikjafríi í rúmar þrjár vikur, eða frá 28. mars þegar keppni í Grill 66 deildinni lauk, á meðan Þórsarar fóru í þriggja leikja einvígi þar sem þeir unnu Hörð frá Ísafirði með eftirminnilegum hætti þrátt fyrir alls konar tilraunir til að koma í veg fyrir það. 

Leikur Fjölnis og Þórs fer fram í Fjölnishöllinni í Grafarvoginum og hefst kl. 18.

Leikdagarnir í einvíginu

  • Laugardagur 20. apríl í Fjölnishöll
  • Þriðjudagur 23. apríl í Höllinni á Akureyri
  • Föstudagur 26. apríl í Fjölnishöll
  • Mánudagur 29. apríl í Höllinni á Akureyri*
  • Fimmtudagur 2. maí í Fjölnishöll*
  • *Ef þörf er á - vinna þarf þrjá leiki til að vinna einvígið