Handbolti: Leikdagur og árskortasala hafin

Þórsarar mæta ungmennaliði Hauka í Grill 66 deildinni í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld, föstudaginn 11. nóvember. Leikurinn hefst kl. 19:30, en húsið verður opnað fyrr, borgarar á grillinu.

Fyrir leikinn eru Þórsarar í fimmta sæti Grill 66-deildarinnar með fimm stig eftir fimm leiki, en Haukaliðið hefur spilað fjóra leiki, unnið einn og situr í 9. og næstneðsta sæti deildarinnar. Góð mæting og mikil stemning var á síðasta heimaleik og vonandi heldur stuðningsfólk liðsins uppteknum hætti og fjölmennir í Höllina í kvöld og styður strákana.

Ársmiðasala í Stubbi

Handknattleiksdeildin hefur hafið sölu ársmiða í Stubbur-appinu fyrir veturinn. Þrjár leiðir eru í boði:

Ársmiðinn: Kostar 15.000 krónur, gildir á alla heimaleiki í Grill 66 deildinni.
Silfurmiðinn: Kostar 25.000 krónur, gildir á alla heimaleiki í Grill 66 deildinni, ásamt hamborgara og drykk á leikdegi.
Þorparinn: Kostar 40.000 krónur, gildir á alla heimaleiki í Grill 66 deildinni, hamborgari og drykkur á leikdegi, auk glæsilegs stuðningsmannabols frá Craft.

Eins og kunnugt er leika Þórsarar nú í Craft-búningum og í tilefni af svokölluðum degi einhleypra, 11.11., veitir craftverslun.is 20% afslátt af öllum vörum, aðeins í dag, 11. nóvember.