Handbolti: Sigur á ungmennaliði Víkings

Þórsarar eru áfram jafnir Fjölnismönnum, rétt við topp Grill 66 deildrinnar, eftir sannfærandi sigur á ungmennaliði Víkings í Grill 66 deild karla í handbolta í dag. Eftir jafnan fyrri hálfleik tóku Þórsarar góðan sprett í upphafi þess seinni og sigldu sigrinum síðan örugglega í höfn. Lokatölur urðu 39-33.

Jafnt var á öllum tölum lengst af fyrri hálfleiks, þar til staðan var 10-10, en þá náðu Þórsarar loks tveggja marka forystu í fyrsta skipti í leiknum. Víkingar höfðu þá þrisvar sinnum fengið tveggja mínútna refsingar á meðan Þórsarar höfðu ekki fengið neina. Þórsarar náðu fljótlega þriggja marka forskoti og staðan eftir fyrri hálfleikinn 19-16.

Fljótlega í seinni hálfleiknum, eftir að bæði lið höfðu skorað eitt mark, kom góður kafli þar sem Þórsarar skoruðu fjögur mörk í röð og munurinn skyndilega orðinn sjö mörk og aldrei spurning eftir það hvoru megin sigurinn myndi lenda. Víkingar náðu að minnka muninn í þrjú mörk, en komust ekki nær en það og Þórsarar juku muninn í sex mörk á lokakaflanum. Lokatölur urðu 39-33.

Með sigrinum ná Þórsarar Fjölnismönnum að stigum, bæði lið eru með 13 stig eftir níu leiki, stigi á eftir ungmennaliði Fram sem hefur 14 stig úr átta leikjum.

Ítarleg tölfræði leiksins (hbstatz.is)

Þór

Mörk: Aron Hólm Kristjánsson 8, Sigurður Ringsted Sigurðsson 7, Brynjar Hólm Grétarsson 6, Þormar Sigurðsson 6, Jón Ólafur Þorsteinsson 5, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Friðrik Svavarsson 2, Halldór Yngvi Jónsson 2, Arnþór Gylfi Finnsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 13, Tómas Ingi Gunnarsson 3.
Refsingar: 6 mínútur.

Víkingur

Mörk: Benedikt Emil Aðalsteinsson 14, Kristófer Snær Þorgeirsson 6, Nökkvi Gunnarsson 5, Sigurður Páll Matthíasson 3, Arnar Gauti Arnarsson 3, Arnar Már Ásmundsson 1, Arnar Steinn Arnarsson 1.
Varin skot: Heiðar Snær Tómasson 8, Hinrik Örn Jóhannsson 5.
Refsingar: 12 mínútur.

Næsti leikur Þórs er útileikur gegn ungmennaliði Vals.

  • Mót: Grill 66 deild karla
  • Leikur: Valur U - Þór
  • Staður: Origo-höllin
  • Dagur: Sunnudagur 10. desember
  • Tími: kl. 16:00